Skeljungur skipti um viðskiptabanka í vor þegar bankinn ákvað að nýta heimild í samingum til hækkunar á vaxtaálagi.

Þetta er haft eftir Hendrik Egholm í tilkynningu Skeljungs um uppgjör fjórðungsins. Hann segir að vel hafi gengið að halda kostnaði í skefjum þrátt fyrir aukinn launa- og kostnaðarþrýsting, bæði á Íslandi og í Færeyjum.

„Til marks um það eykst aðlagaður hagnaður fyrir afskriftir og fjármagnsliði um 19 prósent, miðað við fyrsta ársfjórðung árið 2018. Áhersla okkar er eftir sem áður á skilvirkni í rekstri. Eins og síðustu uppgjör sýna hefur okkur orðið afar ágengt hvað það varðar en við erum þar hvergi nærri hætt og vinnum að stöðugum umbótum,“ segir Egholm.

Egholm nefnir að í lok mars hafi verið gengið frá samningum um endurfjármögnun á öllum vaxtaberandi lánum félagsins í Bandaríkjadölum og krónum og skipt um viðskiptabanka á Íslandi.

„Endurfjármögnunin kom til í kjölfar ákvörðunar þáverandi viðskiptabanka félagsins um að nýta heimild í samningum til hækkunar á vaxtaálagi. Markmiðið með endurfjármögnununni var að lækka vaxtakostnað og draga frekar úr gjaldeyrisáhættu. Lántakan mun ekki hafa veruleg áhrif á fjármagnskostnað, endurgreiðsluferil lána né aðra skilmála frá því sem nú er.“