Skeljungur hefur í dag sölu á umhverfisvænum Tjöruhreinsi undir vöruheitinu Vænni.
Tjöruhreinsirinn, sem hlotið hefur Svansvottun, er framleiddur af sprotafyrirtækinu Gefn fyrir Skeljung og er framleiddur með tækni Gefnar sem umbreytir úrgangi og útblæstri í umhverfisvænni efnavöru.
Framleiðslan er innlend og er unnin úr innlendum úrgangshráefnum sem heldur kolefnisfótspori vörunnar í lágmarki. Umbúðirnar eru einnig úr endurvinnanlegu plasti.
„Þessi nýja vara er einstök og í raun sú fyrsta sinnar tegundar sem hefur hlotið Svansvottun hér á landi"
Guðmundur Þór Jóhannesson, Innkaupastjóri hjá Skeljungi, segir að fyrirtækið hafi verið að leita leiða til að fjölga umhverfisvænni valkostum í vöruframboði félagsins.
„Samstarfið við Gefn gerir okkur kleift að bjóða upp á umhverfisvænni valkost sem getur komið í stað hefðbundinna tjöruhreinsa sem innihalda oftast varasöm og meingandi efni. Þessi nýja vara er einstök og í raun sú fyrsta sinnar tegundar sem hefur hlotið Svansvottun hér á landi,” segir Guðmundur.