Skeljungur hefur undirritað samninga um kaup á 25% hlut í matsölustöðunum Brauð & Co og Gló. Er þetta sagt til þess fallið að nýta staðsetningar verslana félagsins betur og auka vöruúrval í þeim. Brauð & Co rekur sjö bakarí á höfuðborgarsvæðinu en Gló sérhæfir sig einkum í sölu grænmetisrétta.

Meirihlutaeigandi beggja fyrirtækja sem Skeljungur kaupir nú hlut í er Eyja fjárfestingafélag. Það félag er svo aftur í eigu Eygló Bjarkar Kjartansdóttur og eiginmanns hennar, Birgis Bieltvedt.

Uppgjör Skeljungs fyrir annan fjórðung sýndi sem vænta mátti verri afkomu en árið áður sökum áskorana tengdnum Covid-19 faraldrinum. EBITDA-hagnaður á öðrum fjórðungi lækkaði um tæplega 19 prósent frá fyrra ári og hljóðaði upp á 633 milljónir og EBITDA-framlegð lækkaði að sama skapi úr 36,8 prósent í 27,7 prósent. Í ljósi þessa hafa áætlanir um EBITDA-hagnað ársins 2020 verið lækkaðar um ríflega 6 prósent og stjórnendur áætla hagnað þessa árs nú munu lenda á bilinu 2,8 til 3,2 milljarðar.

„Gripið hefur verið til ýmissa hagræðingaraðgerða í rekstrinum að undanförnu sem er að hjálpa afkomu og efnahag félagsins á tímabilinu. Sjóðstreymi samstæðunnar var mjög sterkt á fyrri helmingi ársins. Handbært fé frá rekstri nam tæplega 1,2 milljörðum króna til samanburðar við 121 milljón á sama tímabili í fyrra. Fjárhagsstaða samstæðunnar er sterk sem og rekstrarlegar stoðir hennar,“ er haft eftir Árni Pétri Jónssyni, forstjóra Skeljungs í fréttatilkynningu