Skeljungur hagnaðist um 411 milljónir króna á fyrsta fjórðungi ársins samanborið við 416 milljónir á sama tímabili í fyrra.

Framlegð nam 2.107 milljónum króna og jókst um 20,7 prósent á milli ára. EBITDA nam 892 milljónum og jókst um 9,4 prósent. EBITDA framlegð var 42,3 prósent miðað við 46,7 prósent á sama tímabili í fyrra.

Aðlöguð EBITDA var 848 milljónir sem er hækkun um 19 prósent frá sama tímabili ársins 2018. Leiðrétt var fyrir jákvæðum áhrifum vegna IFRS 16 á ársfjórðungnum 2019 um 44 milljónir og fyrir einskiptishagnaði á ársfjórðungnum 2018 um 103 milljónir.

Arðsemi eigin fjár, á ársgrundvelli, var 19 prósent samanborið við 22,6 prósent á fyrsta ársfjórðungi 2018. Eigið fé í lok tímabilsins nam 9.369 milljónum og eiginfjárhlutfall var 36 prósent.

Horfur fyrir félagið eru óbreyttar og áætlar félagið að EBITDA ársins 2019 verði á bilinu 3.000-3.200 milljónir án áhrifa vegna IFRS 16 og 3.200-3.400 milljóniur með áhrifum IFRS 16. Gert er ráð fyrir að fjárfestingar liggi á bilinu 800-900 milljónir.