Fjárfestar hafa tekið vel í uppgjör Skeljungs fyrir fjórða fjórðung síðasta árs en til marks um það hefur gengi hlutabréfa í félaginu hækkað mest allra félaga í Kauphöllinni í viðskiptum dagsins. Hækkunin nemur liðlega þremur prósentum í um 340 milljóna króna viðskiptum.

Afkoma Skeljungs á fjórðungnum var nokkuð yfir væntingum greinenda IFS og hagfræðideildar Landsbankans en alls hagnaðist félagið um 77 milljónir króna á tímabilinu borið saman við eins milljónar króna tap á sama tíma árið áður.

Hagnaður félagsins fyrir afskriftir, fjármagnsliði og skatta nam alls 512 milljónum króna á síðustu þremur mánuðum ársins 2019 og jókst um rúm 42 prósent á milli ára.

Þá hafa hlutabréf í Sjóvár hækkað um 1,3 prósent í verði í viðskiptum dagsins en félagið birti einnig fjórðungsuppgjör eftir lokun markaða í gær.

Fjárfestar hafa hins vegar ekki tekið eins vel í uppgjör TM en gengi hlutabréfa í tryggingafélaginu hefur fallið um hátt í þrjú prósent í 710 milljóna króna veltu það sem af er degi. Er það mesta lækkunin í Kauphöllinni í dag en sú næst mesta er á gengi bréfa í Icelandair Group sem hefur fallið um 2,6 prósent í liðlega áttatíu milljóna króna viðskiptum.

Úrvalsvísitala Kauphallarinnar hefur hækkað um 0,4 prósent það sem af er degi.