Samkeppniseftirlitið (SKE) hefur hrundið af stað vinnu í því skyni að greina nánar stjórnunar- og eignatengsl milli fyrirtækja í íslensku atvinnulífi.
Í skýrslu sem sérfræðingahópur verkalýðshreyfingarinnar gaf út í janúar á þessu ári, í tengslum við sölu ríkisins á Íslandsbanka, voru settar fram efasemdir um getu íslenskra eftirlitsaðila til að fylgjast með flóknum og földum eignatengslum í hagkerfinu en sá þáttur væri einna mikilvægastur til að takmarka stórar áhættuskuldbindingar í bankakerfinu og lán til tengra aðila. Í hópi þeirra sem stóðu að skýrslunni var Guðrún Johnsen, lektor við Viðskiptaháskólann í Kaupmannahöfn og efnahagsráðgjafi VR, en hún er nú á meðal þeirra sem Samkeppniseftirlitið hefur leitað til vegna þessarar vinnu.
Í svari við fyrirspurn Markaðarins um málið segir Samkeppniseftirlitið að það sé núna með í undirbúningi að taka saman heildstæðar upplýsingar um eftirlit og aðgerðir er varða stjórnunar- og eignatengsl á undanliðnum árum.
Þá segist Samkeppniseftirlitið einnig vera að leita leiða til að styrkja yfirsýn yfir stjórnunar- og eignatengsl, til viðbótar og fyllingar við það eftirlit og aðgerðir sem birst hafa í ákvörðunum stofnunarinnar. „Við þessa vinnu er eftirlitið að leita til annarra stofnana sem búa yfir upplýsingum um eða fylgjast með atvinnulífinu. Jafnframt hefur eftirlitið leitað til fræðimanna sem hafa skoðað þessi mál, auk annarra ráðgjafa, til dæmis á sviði hugbúnaðar,“ segir í svari Samkeppniseftirlitsins. Á meðal þeirra stofnana sem óskað hefur verið eftir upplýsingum frá að undanförnu er Seðlabankinn.
Að sögn eftirlitsins er gert ráð fyrir því að „niðurstaða og framvinda þessarar vinnu verði gerð aðgengileg á komandi vikum.“
Í 8. grein laga um Samkeppniseftirlitið er meðal annars kveðið á um að eitt af meginhlutverkum þess sé að „fylgjast með þróun á samkeppnis- og viðskiptaháttum á einstökum mörkuðum í íslensku viðskiptalífi og kanna stjórnunar- og eignatengsl á milli fyrirtækja.“ Þetta skuli gert til að meta hvort í viðskiptalífinu sé að finna „einkenni hringamyndunar, óæskilegra tengsla eða valdasamþjöppunar sem takmarkað geta samkeppni.“
Í fyrrnefndri skýrslu sérfræðingahóps verkalýðshreyfingarinnar var gagnrýnt að ekki væri að finna neinar útgáfur um þennan þátt Samkeppniseftirlitsins, eins og kveðið væri á um í lögunum, síðan frá því í maí 2001.
„Fjármálaeftirlitið virðist ekki standa Samkeppniseftirlitinu þar framar, sem þó hefur skýra lagaskyldu til að halda úti reglulegri skýrslugjöf, sem ekki hefur verið sinnt. Skortur á skýrslum Samkeppniseftirlitsins um þennan þátt ætti einnig að standa Fjármálaeftirlitinu fyrir þrifum hvað eftirlit með krosseignatengslum, lánum til tengdra aðila og stórum áhættuskuldbindingum, áhrærir,“ sagði í skýrslunni.
Ein af helstu breytingunum sem hafa verið gerðar á regluverki um starfsemi fjármálafyrirtækja í kjölfar falls bankanna 2008 er að búið er að herða verulega á kröfum til virkra eigenda og takmarka mjög útlán til þeirra og tengdra aðila.