Storytel var með 95-100 prósent markaðshlutdeild í smásölu á hljóðbókum á íslensku á árinu 2019, samkvæmt markaðsgreiningu Samkeppniseftirlitsins.

„Markaðurinn er í örum vexti,“ segir Samkeppniseftirlitið og nefnir að veltan á markaðnum hafi verið 100 til 200 milljónir króna árið 2018 en 500-600 milljónr króna ári síðar.

Athygli vekur að Samkeppniseftirlitið rýnir einungis í sölu á hljóðbókum á íslensku en tekur ekki tilliti til samkeppninnar sem íslenskar hljóðbækur eigi við erlendar hljóðbækur sem meðal annars fást hjá Audible, sem er í eigu Amazon. Sú verslun nýtur umtalsverða vinsælda.

Í markaðsgreiningunni segir að það sé mat Samkeppniseftirlitsins að sundurgreina megi markaði eftir tungumáli bóka og því myndi bækur á íslensku sérstakan markað.

„Framkvæmdastjórn Evrópusambandsins hefur í úrlausnum sínum tekið sambærilega afstöðu og skilgreint markaði fyrir bækur eftir útgáfutungumáli þeirra. Þannig tilheyra t.d. bækur á ensku ekki sama markaði og bækur á frönsku,“ segir í greiningunni.

Þegar litið er til útgáfu og heildsölu hljóðbóka á íslensku var Storytel með 80-85 prósenta markaðshlutdeild, Hljóðbók.is með tíu til 15 prósent en aðrir, þar á meðal Forlagið, með minna en fimm prósent hlutdeild.

Markaður fyrir útgáfu hljóðbóka velti 200-250 milljónum króna árið 2019 og þrefaldaðist veltan frá fyrra ári.

Greiningin er að mestu leyti unnin á grunni rannsóknar sem Samkeppniseftirlitið framkvæmdi á mörkuðum fyrir bækur á íslensku á seinni hluta ársins 2020 í tengslum við fyrirhuguð kaup Storytel á Forlaginu. Ekki kom til þess að Samkeppniseftirlitið þyrfti að taka endanlega afstöðu til samrunans þar sem samrunaaðilar drógu samrunatilkynninguna til baka í kjölfar frummats Samkeppniseftirlitsins á samkeppnislegum áhrifum samrunans.