Samkeppniseftirlitið heimilaði ÍSAM, Ó. Johnson & Kaaber og Sælkeradreifingunni að sameinast eftir að sátt náðist. Með sáttinni skuldbinda samrunaaðilar sig til þess að grípa til aðgerða sem miða að því að eyða þeirri samkeppnisröskun sem samruninn hefði að öðrum kosti leitt til. Þetta kemur fram í tilkynningu frá Samkeppniseftirlitinu.

Sameiningin nær eingöngu til heildsöluhluta fyrirtækjanna þriggja en ekki framleiðslufyrirtækja á þeirra vegum. Nýja kaffibrennslan, Kaffitár, Myllan, Ora, Kexverksmiðjan Frón, Kexsmiðjan verða áfram í eigu núverandi hluthafa, að því hefur áður komið fram á vef Fréttablaðsins.

Annars vegar skuldbinda samrunaaðilar sig til þess að tryggja rekstrarlegan aðskilnað milli sameinaðs fyrirtækis og tengds reksturs eigenda félaganna, einkum Myllunnar sem hefur verið í eigu ÍSAM um árabil. Heildsölurekstur samstæðunnar mun fara fram í nýju félagi um svokallað sameiginlegt verkefni (e. joint venture) sem aðskilið verður annarri starfsemi.

Hins vegar skuldbinda samrunaaðilar sig til þess að grípa til sértækari aðgerða til að draga úr neikvæðum áhrifum samruna á samkeppni á sviði þar sem sameinað fyrirtæki hefði að öðrum kosti haft mjög sterka stöðu. Vegna viðskiptahagsmuna er á þessu stigi ekki hægt að upplýsa nánar um efni þessa skilyrðis, en það verður gert á síðari stigum.

ÍSAM er í eigu Kristins sem aftur er í eigu Guðbjargar Matthíasdóttur og fjölskyldu. Ó. Johnson & Kaaber og Sælkeradreifingin eru í eigu Esjubergs. Systkinin Ólafur Johnson og Helga Guðrún Johnson eiga samanlagt 76 prósenta hlut í fyrirtækinu.

Rekstur ÍSAM, sem stefnt er að sameina við Ó. Johnson & Kaaber og Sælkeradreifingu, hefur skilað tapi frá árinu 2017 til 2019, að því er fram hefur komið í frétt á vef Fréttablaðsins. Árið 2017 nam tapið 301 milljón króna, árið 2018 506 milljónum króna og árið 2019 741 milljón króna, samanlagt um 1,5 milljarðar króna.

Kristinn keypti ÍSAM árið 2014 sem er með umboð fyrir Pampers, Gillette, Ariel, Pringles, Always, BKI, St. Dalfour, Hershey‘s og fleiri vörumerki.

Rekstur hinna félaganna tveggja hefur gengið mun betur. Ó. Johnson & Kaaber hagnaðist um 65 milljónir króna árið 2019 og velti um 3,5 milljörðum króna. Arðsemi eiginfjár var 15 prósent og eiginfjárhlutfallið 34 prósent.

Sælkeradreifing hagnaðist um 71 milljón króna árið 2019. Arðsemi eignfjár var ellefu prósent og eiginfjárhlutfallið 84 prósent. Eigið fé félagsins var 653 milljónir króna við árslok 2019.