Samkeppniseftirlitið hefur heimilað kaup eignarhaldsfélagsins Langasjós á öllu hlutafé leigufélagsins Ölmu, sem áður hét Almenna leigufélagið, og telur ekki forsendur til að grípa til neinnar íhlutunar vegna samrunans.

Í tilkynningu sem var send á sjóðsfélaga ALE, fagfjárfestasjóðs í rekstri GAMMA, dótturfélags Kviku, í gærmorgun, kom fram að með samþykki eftirlitsins væri búið að aflétta öllum fyrirvörum vegna kaupanna og gert væri ráð fyrir því að allt söluandvirðið – samtals 11 milljarðar króna – yrði í kjölfarið greitt út til sjóðsfélaga 13. eða 14. apríl, í næstu viku.

Í hópi helstu hluthafa Ölmu, sem sjóðsfélagar í gegnum ALE-sjóðinn, eru meðal annars sjóðastýringarfyrirtækið Stefnir, félög tengd Guðbjörgu Matthíasdóttur, aðaleiganda Ísfélagsins í Vestmannaeyjum, tryggingafélögin TM, Sjóvá og VÍS og einnig Langisjór.

Alma er næststærsta leigufélag landsins með tæplega 1.100 íbúðir í rekstri, einkum á höfuðborgarsvæðinu, og námu heildareignir þess um 47 milljörðum í árslok 2020.

Langisjór er í eigu systkinanna Guðnýjar Eddu, Eggerts Árna, Halldórs Páls og Gunnars Þórs Gíslabarna, en fjölskyldan á meðal annars heildverslunina Mata. Á meðal dótturfélaga í eigu Langasjós, sem átti eignir upp á tæplega 17 milljarða í árslok 2019, eru Brimgarðar, en félagið er langsamlega stærsti hluthafinn í Eik með rúmlega 15,5 prósenta hlut, auk þess að vera á meðal tuttugu stærstu hluthafa í fasteignafélögunum Regin og Reitum.