Samkeppniseftirlitið heimilar samruna Kviku banka og Netgíró. Fyrir samrunann átti Alva Holding og A-Collect, félög að mestu í eigu Skorra Rafns Rafnssonar, 80 prósenta hlut í Netgíró. Kvika banki átti 20 prósenta hlut. Við kaupin mun Kvika banki eingast Netgíró að fullu.

Eftirlitið telur að ekki séu fyrir hendi vísbendingar um að samruninn leiði til myndunar eða styrkingar markaðsráðandi stöðu samrunaaðila á neinum markaði. Jafnframt verði ekki séð að samkeppni á mörkuðum muni raskast að öðru leyti með umtalsverðum hætti. Sameinað fyrirtæki kunni hins vegar verða betur í stakk búið til að veita stærri keppinautum samkeppni á lánamarkaði og á mörkuðum er lúta að greiðsluþjónustu.

Samkvæmt samrunaskrá er aðalstarfsemi samstæðu Kviku einkum eigna- og sjóðastýring, markaðsviðskipti, fyrirtækjaráðgjöf, bankaþjónusta og lánastarfsemi. Þar segir einnig að Netgíró sé lánafyrirtæki sem starfræki rafræna greiðslulausn sem geri neytendum kleift að taka neyslulán til að fjármagna kaup á vörum hjá tilteknum endursöluaðilum.

Haft var eftir Helga Birni Kristinssyni, framkvæmdastjóra Netgíró, í Markaðnum í síðustu viku að gert væri hægt verði að ljúka kaupum Kviku banka á Netgíró á næstu tveimur til þremur vikum.

„Viðræður við Kviku banka ganga vel og er áreiðanleikakönnun að ljúka. Bið eftir endurskoðuðum ársreikningum félagsins hefur aðeins tafið ferlið,“ sagði hann.

Netgíró tapaði 225 milljónum króna fyrir skatta árið 2019 samanborið við 523 milljóna króna tap árið áður. Eigið fé var neikvætt um 226 milljónir króna við árslok en árið áður var það neikvætt um 182 milljónir króna. Við kaupin mun Kvika endurskipuleggja fjárhag Netgíró.

Vaxtatekjur jukust um 22 prósent á milli ára og námu einum milljarði króna í fyrra, að því er fram kemur í ársreikningi Netgíró fyrir árið 2019.