Máli héraðs­sak­sóknara á hendur fjórum liðs­mönnum hljóm­sveitarinnar Sigur Rósar var vísað frá dómi í morgun. Fjór­menningarnir voru grunaðir um stór­felld skattalagabrot og var gefið að sök að hafa komist hjá því að greiða rúm­lega 150 milljónir króna.

Frávísunarúrskurðurinn var kveðinn upp í Héraðsdómi Reykjavíkur í morgun. Héraðssaksóknari ákvað strax að áfrýja málinu til Landsréttar, en áfrýjunarfrestur er fjórar vikur. Allur málskostnaður greiðist úr ríkissjóði.

Nú­verandi og fyrr­verandi liðs­menn hljóm­sveitarinnar sættu á­kærunni, en það voru þeir Jón Þór Birgis­son, Orri Páll Dýra­son, Georg Holm og Kjartan Sveins­son. Rann­sókn málsins var um­fangs­mikil og eignir fyrir um 800 milljónir kyrr­settar.

Tón­listar­mennirnir sendu frá sér yfir­lýsingu þegar málið komst í fjöl­miðla og sögðu að málið megi meðal annars rekja til mis­taka endur­skoðanda sem þeir hafi greitt fyrir að sjá um fjár­mál sín. Þeir væru tón­listar­menn með litla sem enga þekkingu á fjár­málum og fyrir­tækja­rekstri.

Kerfisvandi leiði til frávísunar

Bjarn­freður Ólafs­son, lög­maður hljóm­sveitarinnar, segir að dómurinn hafi tekið undir með frá­vísunar­kröfu sinni, sem var byggð á því að um væri að ræða tvö­földa máls­með­ferð sem sam­ræmist ekki mann­réttinda­sjónar­miðum.

„Það er bara útaf þessum kerfis­vanda sem að er hér á landi. Það er tvö­föld refsing í svona stærri skatta­laga­málum. Það er lögð á refsing hjá ríkis­skatt­stjóra og síðan fer málið í aðra með­ferð sem er sjálf­stæð rann­sókn hjá sak­sóknara og dóm­stóla­mál og farið fram á við­bótar­refsingu í máli sem þegar er búið að refsa fyrir,“ segir Bjarn­freður.

„Og svona ís­lensk stjórn­völd ætla seint að horfast í augu við það að ofan á þetta að þá við erum með kerfis­vanda sem er ekki í rauninni í okkar ná­granna­löndum. Við erum með þrjár sjálf­stæðar stofnanir sem rann­saka málin og það er löngu búið að laga þetta allt saman í löndunum í kringum okkur. En við ein­hvern veginn þráumst við og höldum þessu bara á­fram,“ bætir hann við.