Rafmyntir eða sýndarfé (e. crypto­currency) á borð við bitcoin hafa á síðustu árum verið í stöðugri sókn sem fjárfestingarmöguleiki fyrir hinn almenna fjárfesti. Verðmæti rafmyntarinnar bitcoin hefur margfaldast á síðustu fimm árum þó að markaðsvirði hennar eigi það til að vera á talsverðri hreyfingu. Verðmæti og skattar eru hugtök sem eru sjaldnast aðskilin. Ekki er fyrir að fara sérstöku ákvæði í íslenskri skattalöggjöf um hvernig skuli skattleggja verðmætasköpun þeirra sem stunda viðskipti með rafmyntir. Sama má segja um starfsemi þeirra sem „grafa“ eftir rafmyntum með stafrænum hætti en um er að ræða ört stækkandi starfsemi sem að miklu leyti fer fram hérlendis í gagnaverum sem nýta græna orku til starfseminnar. Rafmyntir virðast komnar til að vera og því brýn þörf fyrir umtalsverðri endurskoðun á íslenskri skattalöggjöf vegna þeirrar verðmætasköpunar sem byggir á viðskiptum tengdum rafmyntum. Ellegar kann skattlagning að vera byggð á óljósri afstöðu skattyfirvalda vegna skorts á skýrum réttarheimildum. Vart þarf að minna á skilyrði 77. gr. Stjórnarskrár lýðveldisins Íslands í þessu sambandi.

Í grófum dráttum eru rafmyntir stafrænar eignir sem verða m.a. til með tölvum og hugbúnaði sem gegna því hlutverki að framkvæma rafrænar, milliliðalausar og dulkóðaðar færslur á verðmætum. Bitcoin og margar aðrar rafmyntir verða til með svokölluðum „greftri“ sem felur í sér að notandi tölvu- og hugbúnaðar heldur uppi svokallaðri bálkakeðju-tækni (e. blockchain) með því leysa flókna útreikninga í þeim tilgangi að framkvæma færslur af framangreindum toga. Endurgjald til viðkomandi getur t.d. verið rafmynt á borð við bitcoin. Einnig geta rafmyntir orðið til með ferli sem kallast því enska nafni „tokenization“ þar sem eignasafn sem samanstendur af mismunandi efnislegum og óefnislegum eignum er komið yfir á stafrænt form.

Rafmynt mætti nýta með tvennum hætti. Annars vegar geta aðilar notað rafmynt sem gjaldeyri til að greiða fyrir vörur eða þjónustu. Hins vegar getur viðkomandi farið með rafmynt sem nokkurs konar verðbréf þar sem verðmæti rafmyntar í viðskiptum getur tekið mið af gengi gagnvart hefðbundnum gjaldeyri á borð við íslensku krónuna.

Nýverið birtist úrskurður á vefsíðu yfirskattanefndar nr. 215/2021 sem að ákveðnu leyti gefur vísbendingu um hvernig skattyfirvöld hérlendis munu skattleggja viðskipti einstaklinga með rafmyntir samkvæmt lögum um tekjuskatt nr. 90/2003. Úrskurðurinn rataði nýverið í fjölmiðla þar sem umfjöllun var gerð um þau verðmæti sem höfðu skapast hjá aðila sem stundaði viðskipti með bitcoin árin 2016 og 2017, eftir að hafa „grafið“ eftir rafmyntinni árin 2009 og 2010 í tómstundaskyni, að eigin sögn. Í úrskurðinum leiðir yfirskattanefnd að því líkur að athöfnin við að grafa eftir rafmyntinni bitcoin, teljist almennt gerð í þeim efnahagslega tilgangi að skila hagnaði. Var því ekki fallist á þá afstöðu aðilans um að hann hefði verið að grafa eftir rafmyntinni í tómstundaskyni.

Í skattalegum skilningi eru þrjú skilyrði sem hafa almennt úrslitaáhrif á það hvort starfsemi sé stunduð í atvinnuskyni eða tómstundaskyni. Í fyrsta lagi þarf að horfa til umfangs starfsemi, þ.e. varanleika hennar í tíma og þeirra fjárhæða sem um er að tefla. Í öðru lagi þarf að horfa til efnahagslegs tilgangs starfseminnar, þ.e. hvort starfsemi fari fram í þeim tilgangi að skila hagnaði eða ekki. Í þriðja lagi er horft á eðli starfseminnar, þ.e. er starfsemin samsvarandi starfsemi sem almennt er stunduð í atvinnuskyni. Það viðmið lýtur að samkeppni.

Hafa ber í huga að skattaleg meðferð tekjuöflunar í tómstundaskyni er önnur en í atvinnuskyni. Verða henni gerð nánari skil í seinni hluta umfjöllunar um skattlagningu á rafmyntir og rafmyntagröft sem birt verður í Markaðnum innan tíðar.

Höfundur er lögmaður hjá KPMG Law.