Eimskipafélag Íslands tapaði 2,5 milljónum evra, jafnvirði 347 milljóna króna, á fyrsta fjórðungi ársins 1,6 milljóna tap á sama ársfjórðungi 2018.

Neikvæð einskiptis skattaleg áhrif að fjárhæð 3,4 milljónir evra hafa áhrif á afkomu ársfjórðungsins. Án þessa einskiptis liðar væri hagnaður 0,9 milljónir evra.

Tekjur námu 164 milljónum evra og hækkuðu um 8,5 milljónir eða 5,4 prósent frá sama ársfjórðungi 2018. Magn í áætlunarsiglingum jókst um 4,6 prósent, drifið áfram af umtalsverðri aukningu í gámaflutningum sem jukust um 9 prósent og hækkuðu tekjur um 5,1 milljón evra eða 5 prósent. Magn í flutningsmiðlun jókst um 1 prósent en frystiflutningsmiðlun jókst um 8,7 prósent.

Launakostnaður lækkar á milli tímabila en annar rekstrarkostnaður hækkar um 5,3 prósent án áhrifa IFRS 16. Laun og launatengd gjöld námu 32,7 milljónum evra samanborið við 33,7 milljónir á sama fjórðungi síðasta árs sem er lækkun um 3 prósent. Á tímabilinu störfuðu að meðaltali um 1.800 starfsmenn hjá félaginu samanborið við um 1.860 starfsmenn á sama tímabili í fyrra.

Annar rekstrarkostnaður nam 115,8 milljónum evra. Án áhrifa IFRS 16 nam annar rekstrarkostnaður 120,6 milljónum evra samanborið við 114,5 milljónir á sama ársfjórðungi síðasta árs sem er hækkun um 6,1 milljón eða 5,3 prósent.

EBITDA nam 15,5 milljónum evra á fyrsta ársfjórðungi 2019 en 10,6 milljónum án áhrifa IFRS 16 samanborið við 7,3 milljónir á sama ársfjórðungi síðasta árs sem er aukning um 47 prósent.

„Helstu ástæður fyrir hækkun í EBITDA framlegð á milli ára eru jákvæður viðsnúningur í afkomu í Noregi, áframhaldandi vöxtur í Trans-Atlantic flutningum og í frystiflutningsmiðlun, góður gangur í starfseminni á Íslandi og þá eru hagræðingar- og skipulagsaðgerðir byrjaðar að skila sér,“ segir í tilkynningu um uppgjörið.