Frumvarp nokkurra þingmanna Sjálfstæðisflokksins um skattaafslátt vegna hlutabréfakaupa gerir ráð fyrir að einstaklingum sé veitt heimild, með ákveðnum takmörkunum, til að draga frá tekjuskatti kaup á skráðum hlutabréfum og hlutdeildarskírteinum verðbréfa- og hlutabréfasjóða sem eru skráðir á skipulegan verðbréfamarkað, eða fjárfesta eingöngu í skráðum hlutabréfum.

Í frumvarpsdrögunum, sem Viðskiptablaðið greinir frá, kemur fram að skattafrádrátturinn miðist við fjárfestingu á hverju ári og verði 100 prósent af verðmæti keyptra hlutabréfa umfram verðmæti seldra hlutabréfa, en þó aldrei hærri en 250.000 kr krónur hjá einstaklingi og 500.000 krónur hjá hjónum. Miðað er við eignarhald á hlutabréfunum í þrjú ár.

Í nýlegri umfjöllun Markaðarins lýstu stórir einkafjárfestar og forstöðumenn hjá hlutabréfasjóðum áhyggjum yfir því að virkum þátttakendum á hlutabréfamarkaðinum hefði fækkað. Bent var á að lífeyrissjóðir hefðu dregið úr eign sinni í hlutabréfasjóðum og að hluthöfum í skráðum félögum færi fækkandi.

Skattaafsláttur vegna hlutabréfakaupa var lagður til í Hvítbókinni um fjármálakerfið sem leið til þess að efla virkni hlutabréfamarkaðarins. Þar var bent á að þegar hlutabréfamarkaðurinn var byggður upp á tíunda áratug tuttugustu aldar hefði almenningur verið hvattur til hlutabréfakaupa með skattahvötum. Afslátturinn var síðan lækkaður í skrefum og afnuminn upp úr aldamótum.