Auðbjörg Óskarsdóttir, alþjóðlegur markaðsstjóri BIOEFFECT, segir að það skipti öllu máli í áskorunum sem fylgja COVID-19 að vera skapandi, opin fyrir nýjungum og geta aðlagað sig hratt að síbreytilegu umhverfi.

Hver eru þín helstu áhugamál?

Ég hef allt of mörg áhugamál og of lítinn tíma. Þau eru aðeins breytileg eftir árstíma, á veturna þá finnst mér fátt skemmtilegra en að fara á skíði. Næst á dagskrá er að prófa gönguskíði… eru ekki allir þar núna? Á sumrin finnst mér skemmtilegast að vera í sundi, fjallgöngum og standa fyrir garðveislum. Það býr líka mikill föndrari í mér og ég hef gaman að alls kyns list, saumaskap, myndlist og prjónaskap. Ég er nýlega aftur búin að taka upp prjónana eftir margra ára pásu. Ef ég ætti aðeins meiri tíma þá myndi ég vilja byrja æfa jóga, stunda hugleiðslu og kannski golf. Sjáum hvernig 2021 fer.

Hvernig er morgunrútínan þín?

Ég er algjör morgunhani. Mér finnst best að vakna fyrst á undan öllum öðrum á heimilinu, líka um helgar. Ég byrja alltaf daginn á þessu klassíska, kaffibolla, macch­i­ato með sjálfri mér. Ég fæ mér síðan vítamín og þríf á mér húðina. Ég er ekki með flókna húðrútínu á morgnana, en þríf hana alltaf með BIOEFFECT Micellar vatni, svo nokkrar skvettur af BIOEFFECT EGF Essence og annaðhvort nokkra dropa af EGF Serum eða 30 Day Treatment. Svo er ég klár í að vekja alla á heimilinu og koma öllum út í daginn.

Hvaða bók hefur haft mest áhrif á þig?

Það koma strax nokkrar upp í hugann og erfitt að nefna eina. En fyrsta bókin sem ég man eftir að hafi haft mikill áhrif á mig var Sagan af Önnu Frank. Ég hef verið rúmlega 13 ára þegar ég las hana fyrst búsett í Bandaríkjunum og með margar vinkonur af gyðingaættum. Þetta var í fyrsta skipti sem ég áttaði mig á þeim forréttindum sem ég ólst upp við, að hafa aldrei upplifað stríð eða óttast um líf mitt. Þetta var einnig í fyrsta skipti sem ég lifði mig inni í bók og leið eins og ég hefði verið þátttakandi í henni. Þessi bók sat lengi vel í mér.

Við settum skýrari fókus á allt sem getur kallast „online“, frá því hvernig við vinnum með samstarfsaðilum, okkar eigin netverslanir og framleiðslu á markaðsefni.

Hver hafa verið mest krefjandi verkefnin á undanförnum misserum?

Það hefur verið mjög krefjandi að vinna á alþjóðlegum neytendamarkaði sem hefur þurft að aðlaga sig hratt nýjum veruleika vegna COVID-19 heimsfaraldursins. Það varð snemma ljóst að BIOEFFECT yrði að nálgast neytendur á allt annan hátt. Á alþjóðamörkuðum voru verslanir lokaðar, neytendur í útgöngubanni og sala í fríhöfnum og flugvélum engin. Við settum skýrari fókus á allt sem getur kallast „online“, frá því hvernig við vinnum með samstarfsaðilum, okkar eigin netverslanir og framleiðslu á markaðsefni. Í miðju COVID settum við á markað afmælisútgáfu af okkar vinsæla EGF Serum sem við unnum í samstarfi við íslenska listamanninn Shoplifter. Viðtökurnar um allan heim hafa verið framar vonum og það hefði ekki tekist svona vel til nema hversu hratt við aðlöguðum okkur ástandinu, oftar en einu sinni. Þetta krefjandi COVID-ástand hefur reynst langhlaup og við erum ekki komin að endamarkinu.

Hvaða áskoranir eru fram undan?

Nú höfum við lagt mikla vinnu í okkar stafrænu vegferð, bæði hér á landi jafnt sem erlendis. Hún er rétt að byrja og mun BIOEFFECT áfram leggja höfuðáherslu á markaðssetningu á netinu. Það skiptir öllu máli í þessu ástandi að vera skapandi, opin fyrir nýjungum og geta aðlagað sig hratt síbreytilegu umhverfi. Rétt í þessu vorum við að koma BIOEFFECT inn í Cult Beauty sem er leiðandi alþjóðleg snyrtivöru-netverslun. Alþjóðasamkeppnin er mikil og þá skiptir sköpum að geta aðgreint sig frá henni og vekja athygli á sérstöðu BIOEFFECT, leiðandi snyrtivörufyrirtæki í líftækni sem byggir á íslensku hugviti, fáum en hreinum innihaldsefnum, íslenskum auðlindum og framleiðslu sem fer alfarið fram á Íslandi.

Það eru ekki aðeins áskoranir í vinnu, heldur einnig heima fyrir. Það hefur verið mikið álag á heimilið síðastliðið ár með aukinni viðveru barnanna heima, aukið heimanám, heimaæfingar og færri tækifæri til að hitta vini sína. Þetta síðasta ár hefur kennt manni að forgangsraða og hversu mikilvægt það er að eiga samverustundir með fjölskyldunni, hlúa að hvert öðru og sýna samkennd. Það verður svo áskorun að halda góðu jafnvægi milli vinnu og fjölskyldulífs þegar lífið fer aftur af stað í sinn vanagang, vonandi fyrr en síðar hér á Íslandi. Svo verður áskorun að halda úti þéttu plani fyrir alla vinahittinga fram undan þegar öllum takmörkunum verður aflétt.

Hver er uppáhaldsborgin þín?

Uppáhaldsborgin mín er án efa París. Ég er alltaf jafn hugfangin af sögunni, byggingarstílnum, fallegu görðunum og tískunni. Ég elska franskt vín, osta, croissant og kaffi. Hver þarf meira?

Fólk nýtur lífsins í París í hitabylgju áður en COVID-19 reið yfir heimsbyggðina.
Fréttablaðið/EPA

Helstu drættir

Nám:

BA í sálfræði frá Háskóla Íslands

Störf:

Birtingarstjóri Góðu Fólki, Sérfræðingur í birtingum hjá Pipar TBWA, Svæðisstjóri hjá Bestseller, verkefnastjóri í markaðsdeild Isavia, (núverandi) Alþjóðlegur markaðsstjóri BIOEFFECT

Fjölskylduhagir:

Í sambúð með Birni Guðmundssyni, öryggisstjóra Icelandair. Saman eigum við þrjú börn, Karitas Hildi (10 ára), Guðmund (9 ára) og Theodóru Hildi (4 ára).