Nýlegt verðmat greinenda Capacent, sem byggir á sértæku hlutfallsmati fyrir skráðu tryggingafélögin þrjú, gefur til kynna að hlutabréf í Sjóvá séu umtalsvert vanmetin á markaði, bréf í VÍS örlítið vanmetin en hlutabréf í TM aðeins ofmetin.

Umrætt hlutfallsmat, þar sem horft er til meðaltals rekstrarárangurs tryggingafélaganna á síðustu sex árum, byggir meðal annars á sögulegu samsettu hlutfalli félaganna, væntingum um fjárfestingatekjur, eignum sem margfeldi af iðgjöldum sem og væntingum um vöxt.

Í verðmati Capacent, sem Fréttablaðið hefur undir höndum, er bent á að rekstur tryggingafélaganna þriggja - Sjóvár, TM og VÍS - hafi verið svipaður síðustu sex árin. Eftir uppgjör síðasta árs virðist hins vegar sem tryggingarekstur Sjóvár sé að meðaltali sjónarmun betri en rekstur hinna félaganna tveggja.

Þá hafi samsett hlutfall félaganna, það er hlutfall rekstrar- og tjónakostnaðar af eigin iðgjöldum, að meðaltali verið um 99 prósent á tímabilinu.

Tekið er fram að bati hafi verið í rekstri Sjóvár og VÍS síðustu tvö ár á meðan tryggingarekstur TM hafi ekki gengið sem skyldi.

Hlutfallslegur munur á verðmati og sértæku hlutfallsmati Capacent er mestur í tilfelli VÍS, að því er fram kemur í skýrslu ráðgjafafyrirtækisins, sem skýrist af þeim mikla viðsnúningi sem hefur orðið í rekstri tryggingafélagsins undanfarin ár en sérfræðingar Capacent leggja í mati sínu meiri áherslu á rekstrarárangur síðustu tveggja ára. Aftur á móti er munurinn á hlutfallsmati og verðmati lítill í tilfelli Sjóvár og TM.

Greinendur ráðgjafafyrirtækisins gera ráð fyrir lítilsháttar bata í rekstri allra tryggingafélaganna á næstu árum og að til lengri tíma litið muni félögin nálgast hvert annað í þeim efnum. Þó er búist við því að samsetta hlutfall Sjóvár verði áfram sjónarmun betra en hinna félaganna - það er að félagið verði með sterkasta grunnreksturinn - en umrætt hlutfall félagsins hefur að meðaltali verið hagstæðara en hjá hinum félögunum síðastliðin sex ár.

Þá gerir Capacent ráð fyrir því að til lengri tíma litið muni ávöxtun tryggingafélaganna af fjárfestingareignum vera svipuð. Sögulega hefur ávöxtunin þó verið best í tilfelli TM og er reiknað með að það verði áfram raunin.