Sjóvá hagnaðist um 1.053 milljónir króna á fyrsta fjórðungi ársins samanborið við 749 milljónir á sama fjórðungi í fyrra. Forstjóri Sjóvár segir niðurstöðuna ánægjulega hvort sem litið sé til vátryggingarekstrar eða fjárfestinga.

Hagnaður af vátryggingastarfsemi fyrir skatta nam 411 milljónum króna en var 396 milljónir á sama tímabili í fyrra. Hagnaður af fjárfestingarstarfsemi fyrir skatta nam 769 milljónum króna á fjórðungnum samanborið við 422 milljónir á fjórðungnum 2018.

Ávöxtun eignasafns félagsins á tímabilinu nam 3,5 prósent og jókst um 1,5 prósentustig á milli ára. Samsett hlutfall 98,1 prósent en það var 97,2 prósent í fyrra.

„Afkoma Sjóvár á fyrsta ársfjórðungi nam 1.053 m.kr. sem er 41 prósenta aukning frá fyrra ári. Niðurstaðan er afar ánægjuleg hvort sem litið er til vátryggingarekstrar eða fjárfestinga,“ er haft eftir Hermanni Björnssyni, forstjóra Sjóvár í tilkynningu um uppgjörið.

„Á sveiflukenndum fjárfestingamörkuðum hefur það verið yfirlýst markmið okkar að byggja ekki afkomuna um of á þeim heldur að skila jákvæðri afkomu af vátryggingastarfsemi og það hefur okkur tekist undanfarna 12 fjórðunga sem verður að teljast afar jákvætt og til marks um styrkan og sjálfbæran grunnrekstur.“

Horfur félagsins um afkomu fyrir skatta hafa verið uppfærðar úr 3.300 milljónum króna í um 4.200 milljónir og taka mið af þróun á eignamörkuðum til loka apríl. Horfur félagsins til næstu tólf mánaða eru að samsett hlutfall verði um 95 prósent og að afkoma fyrir skatta verði um 3.800 milljónir.