Sjóvá hefur hækkað um 3,5 prósent í 30 milljón króna viðskiptum en VÍS hefur lækkað um 2 prósent í 39 milljóna króna viðskiptum við upphaf viðskipta í morgun. Í gærkvöldi birtu tryggingafélögin jákvæðar afkomuviðvaranir.

Samkvæmt drögum að uppgjöri Sjóvár á fjórða ársfjórðungi 2020 mun afkoma fyrir skatta vera um þrír milljarðar króna og samsett hlutfall á fjórðungnum um 90 prósent. Afkoma fyrir skatta á árinu 2020 mun samkvæmt þessu vera um 5,9 milljarðar króna og samsett hlutfall um 92 prósent.

„Samsett hlutfall er í takt við birtar horfur en afkoma af fjárfestingastarfsemi miklu betri sökum jákvæðrar þróunar á hlutabréfamarkaði á fjórða ársfjórðungi,“ segir í tilkynningu frá Sjóvá.

VÍS segir í tilkynningu til Kauphallarinnar að samkvæmt drögum að uppgjöri fyrir árið 2020 sé vænt afkoma félagsins fyrir árið hagstæðari en afkomuspá gerði ráð fyrir. Nú áætli félagið að hagnaður ársins 2020 fyrir skatta verði um 1,6 milljarðar króna en afkomuspá félagsins sem birt var þann 17. desember síðastliðin gerði ráð fyrir hagnaði upp á 1.150 milljónir króna fyrir skatta.

„Ástæðan fyrir betri afkomu en gert var ráð fyrir, er hærri ávöxtun fjáreigna í desember 2020. Afkoma af tryggingarekstrinum er þó lakari en gert var ráð fyrir vegna þyngri tjóna á tímabilinu sem og útreiknings á tjónaskuld.

Þess ber að geta að tjónaskuldin hefur samanlagt verið hækkuð um tæpa þrjá milljarða á árinu 2020 að meðtöldum áhrifum á fjórða ársfjórðungi ársins. Þetta hefur haft áhrif til hækkunar á samsett hlutfall ársins og neikvæð áhrif á afkomu félagsins,“ segir í tilkynningu VÍS.

Í morgun hefur Icelandair hækkað um 1,3 prósent og Arion um 1,1 prósent. Brim hefur lækkað um 3,2 prósent.