Tryggingafélagið Sjóvá hækkaði um 2,53 prósent í 184 milljóna króna viðskiptum í Kauphöllinni í dag.

Sjóvá hagnaðist um 1.053 milljónir króna á fyrsta fjórðungi ársins samanborið við 749 milljónir á sama fjórðungi í fyrra. Forstjóri Sjóvár segir niðurstöðuna ánægjulega hvort sem litið sé til vátryggingarekstrar eða fjárfestinga.

Horfur félagsins um afkomu fyrir skatta hafa verið uppfærðar úr 3.300 milljónum króna í um 4.200 milljónir og taka mið af þróun á eignamörkuðum til loka apríl.

Þá hækkaði Icelandair um 2 prósent og Tryggingamiðstöðin um 1,64 prósent. Í gær var greint frá því að fjárfestingafélagið Stoðir væri orðið stærsti hluthafi Tryggingamiðstöðvarinnar (TM) með tæplega tíu prósenta hlut en viðskiptin voru gerð í tengslum við hlutafjárhækkun fjárfestingafélagsins.