Sjóður í stýringu bandaríska vogunarsjóðsins Bridgewater Associates skilaði 14,6 prósenta ávöxtun á síðasta ári, samkvæmt heimildum Financial Times, á sama tíma og vogunarsjóðir skiluðu að meðaltali neikvæðri ávöxtun upp á 6,7 prósent.

Árleg ávöxtun sjóðsins, Pure Alpha Strategy, hefur verið 12 prósent að meðaltali frá því hann var settur á laggirnar árið 1991. Ávöxtun sjóðsins á síðasta ári var sú besta í fimm ár.

Bridgewater, sem milljarðamæringurinn Ray Dalio stýrir, er stærsti vogunarsjóður í heimi með eignir í stýringu upp á 160 milljarða dala. Sjóðurinn hefur hagnast um ríflega 50 milljarða dala á líftíma sínum, samkvæmt gögnum frá LCH Investments. Stjórnendur vogunarsjóðsins hafa um nokkurt skeið lýst yfir áhyggjum sínum af minni vexti í heimshagkerfinu og sagt marga fjárfesta vera andvaralausa gagnvart aðhaldsaðgerðum seðlabanka víða um heim.

„Við eigum eftir að horfa fram á töluvert veikari hagvöxt árið 2019, miðað við okkar greiningar, og fjárfestar eru almennt ekki að taka mið af því í verðlagningu sinni,“ sagði Greg Jensen, sjóðsstjóri hjá Bridgewater, í samtali við Reuters í fyrra.