Innviðasjóður Ancala Partners sem keypti í maí í fyrra helmingshlut í HS Orku hefur lokið fjármögnun upp á samanlagt 735 milljónir evra, jafnvirði tæplega 102 milljarða króna. Um þrjátíu stofnanafjárfestar frá Evrópu, Ástralíu, Asíu og Norður-Ameríku lögðu sjóðnum til fé.

Breska sjóðastýringarfyrirtækið, sem sérhæfir sig í innviðafjárfestingum í Evrópu, greindi frá fjármögnuninni í liðinni viku. Fjármögnunin gekk betur en forsvarsmenn sjóðsins, sem ber heitið Ancala Infrastructure Fund II, höfðu gert sér vonir um en þeir stefndu upphaflega að því að sækja allt að 600 milljónir evra.

Í tilkynningu Ancala Partners var tekið fram að sjóður fyrirtækisins hefði þegar varið um 150 milljónum evra, jafnvirði 21 milljarðs króna, í fjárfestingar í hollenska fjarskiptafyrirtækinu Fore Freedom, John Lennon-flugvellinum í Liverpool-borg í Bretlandi og HS Orku. Að meðtöldum fjármunum frá meðfjárfestum gæti sjóðurinn nú fjárfest fyrir allt að einn milljarð evra, eða um 138 milljarða króna.

Innviðasjóðurinn, sem hefur tólf ára líftíma, stefnir að því að skila árlega á bilinu tíu til þrettán prósenta ávöxtun. Forsvarsmenn hans segja sjóðinn geta aukið virði meðalstórra innviðafyrirtækja sem hafi ekki hlotið næga athygli af hálfu fyrri eigenda.

Jarðvarmi, samlagshlutafélag í eigu fjórtán lífeyrissjóða, nýtti á síðasta ári forkaupsrétt sinn til kaupa á 53,9 prósenta hlut í HS Orku af kanadíska orkurisanum Innergex ásamt því að kaupa 12,7 prósenta hlut fagfjárfestasjóðsins ORK í íslenska orkufyrirtækinu. Kaupin voru gerð í samfloti með sjóði Ancala Partners en í kjölfar þeirra fóru breski sjóðurinn og Jarðvarmi með helmingshlut hvor í HS Orku.

Samtals var um að ræða kaup á 66,6 prósenta hlut í HS Orku og var samanlagt kaupverð hlutanna um 47 milljarðar króna.

Haft var eftir Lee Mellor, meðeiganda Ancala Partners, á þeim tíma að sjóðurinn deildi sameiginlegri hugmyndafræði með Jarðvarma þar sem áhersla væri lögð á stuðning við stjórnendur, frekari fjárfestingar og samstarf til langs tíma. HS Orka væri ákjósanlegur grunnur til að vinna að frekari verkefnum á vettvangi endurnýjanlegrar orku á Íslandi.