Hlutabréfasjóðir á vegum Kviku banka og Stefnis, dótturfélags Arion banka, hafa selt megnið af hlutabréfum sínum í Skeljungi. Þetta má lesa úr nýbirtum hluthafalista smásölufélagsins. Alls seldu sjóðirnir um 6 prósenta hlut og á sama tíma bætti fjárfestingafélagið Strengur verulega við sinn hlut í smásölufélaginu. Hins vegar stendur eignarhlutur lífeyrissjóða nær óhaggaður.

Um áramótin áttu tveir sjóðir á vegum Stefnis samtals 5,3 prósenta hlut í Skeljungi og tveir sjóðir á snærum Kviku banka áttu samanlagt 2,6 prósenta hlut, hvor sjóður með 1,3 prósent. Nýr hluthafalisti sýnir að sjóðir Stefnis seldu sig niður í 1 prósents hlut. Annar af sjóðum Kviku seldi sig niður í 0,44 prósent og hinn hvarf af listanum.

Sem kunnugt er gerði fjárfestingafélagið Strengur yfirtökutilboð í Skeljung. Strengur er í eigu Sigurðar Bollasonar og eiginkonu hans, Nönnu Bjarkar Arngrímsdóttur, Ingibjargar Pálmadóttur og fasteignasalanna Þórarins A. Sævarssonar og Gunnars Sverris Harðarsonar. Hluthafar Strengs voru áður hluthafar í Skeljungi en þeir gerðu með sér samkomulag um að leggja hluti sína í Streng og leggja fram yfirtökutilboð.

Hluthafar í Skeljungi sem áttu samtals 2,56 prósenta hlut í fyrirtækinu, tóku yfirtökutilboði Strengs. Lífeyrissjóðir neituðu hins vegar tilboðinu, meðal annars vegna þess að tilboðsverðið, 8,315 krónur á hlut, var lægra en markaðsverð. Í kjölfarið hófu Strengur og tengdir hluthafar, sem fóru með 41,6 prósenta atkvæðisrétt í Skeljungi eftir niðurstöðu yfirtökutilboðsins, uppkaup á bréfum félagsins.

Eftir lokun markaða síðastliðinn fimmtudag var tilkynnt að Strengur hefði keypt níu milljónir hluta, sem samsvara 4,5 prósenta eignarhlut, í tvennu lagi. Gengi kaupanna var annars vegar 10,5 og hins vegar 10,4. Eftir kaupin fór Strengur með atkvæðisrétt sem nemur 50,06 prósentum atkvæða, að frádregnum eigin hlutum félagsins.

Tvö eignarhaldsfélög sem voru á hluthafalista Skeljungs um áramótin eru horfin af listanum. Annars vegar er það Urðarbogi, félag Þorvaldar H. Gissurarsonar, eiganda ÞG verks, sem fór með 0,5 prósenta hlut og hins vegar Eignarhaldsfélagið VGJ, félag Eiríks Vignissonar, sem fór með 0,3 prósenta hlut.