Sjóðir á vegum fjárfestingabankans Roth­schild & Co og eignastýringarfélagsins LGT Capital Partners hafa samið um kaup á hlutum danskra lífeyrissjóða í sjóðnum VIA equity Fond III sem á tæplega fjórtán prósenta óbeinan hlut í Advania.

Í kjölfar kaupanna, sem gert er ráð fyrir að gangi endanlega í gegn á yfirstandandi ársfjórðungi, munu umræddir sjóðir fara með ríflega 99 prósenta hlut í VIA equity Fond III sem á aftur tæplega 46 prósenta hlut í eignarhaldsfélaginu VIA VPF, stærsta hluthafa Advania með um þrjátíu prósenta hlut. Starfsmenn VIA equity, norður­evrópska fjárfestingasjóðsins sem rekur sjóðinn VIA equity Fond III, eiga afganginn í sjóðnum.

Seljendur eru ATP og PFA, tveir af stærstu lífeyrissjóðum Danmerkur, en sá síðarnefndi er þó áfram hluthafi í Advania, með rúman sextán prósenta hlut, í gegnum áðurnefnt félag VIA VPF.

Sjóður VIA equity og PFA bættust sem kunnugt er í hluthafahóp Advania haustið árið 2018 með kaupum - í gegnum VIA VPF - á þrjátíu prósenta hlut í upplýsingatæknifélaginu.

VIA equity, sem leggur einkum áherslu á fjárfestingar á sviði tækni og þjónustu, rekur alls þrjá sjóði sem hver um sig hafa eiginfjárstöðu upp á einn milljarð danskra króna, jafnvirði tæplega 21 milljarðs íslenskra króna.

Benjamin Kramarz, einn af eigendum VIA equity, hefur umsjón með fjárfestingu fjárfestingasjóðsins í Advania en hann situr fyrir hönd hans í stjórn upplýsingatæknifélagsins.