Þrír sjóðir á vegum sjóðastýringarinnar Akta eru samanlagt stærsti hluthafi Play með 10,89 prósenta hlut. Stærsti einstaki hluthafi flugfélagsins er Fiskisund með 8,64 prósenta hlut og Birta lífeyrissjóður á 8,57 prósenta hlut. Þetta má lesa úr nýjum hluthafalista sem birtur var í dag eftir nýlegt hlutafjárútboð samhliða því að bréf Play voru tekin til viðskipta á First North markaði Kauphallarinnar.

Eini nýi hluthafinn á meðal 20 stærstu eftir hlutafjárútboðið er Frjálsi lífeyrissjóðurinn með 1,71 prósenta hlut og skipar hann 13. sætið yfir stærstu hluthafana.

Fyrir hlutafjárútboð í aðdraganda skráningar í Kauphöllina var Birta stærsti hluthafinn með 12,55 prósenta hlut en Fiskisund með 11,86 prósenta hlut. Því má segja að þessir hluthafar hafi haft stólaskipti eftir útboðið. Einar Örn Ólafson, stjórnarformaður Play, er á meðal þriggja hluthafa Fiskisunds. Aðrir hluthafar þess eru Halla Sigrún Hjartardóttir og Kári Þór Guðjónsson.

Fjórði stærsti hluthafinn Play er safnreikningur sem Kvika heldur utan með 5,71 prósenta um en leiða má líkum að Stoðir, sem var þriðji stærsti hluthafinn fyrir útboðið með 8,37 prósenta hlut, eigi í reynd þau bréf.

Sjóðirnir sem Akta stýrir og eru á meðal hluthafa Play eru Akta Stokkur með 4,4 prósenta hlut, Akta HS1 með 3,75 prósenta hlut og Akta HL1 með 2,74 prósent.

Þetta er fyrsti dagurinn sem Play er skráð á hlutabréfamarkað. Þegar þetta er ritað hefur gengið hækkað um 38 prósent miðað við útboðsgengið fyrir almenna fjárfesta sem var 18 en ávöxtun stærri fjárfesta nemur 25 prósentum en þeir fengu að kaupa á genginu 20. Nú er gengið 24,98 og veltan með bréfin nemur 570 milljónum króna.