Sjö starfsmönnum Landsbankans var sagt upp störfum í gær. Þetta staðfestir Rúnar Pálmason, upplýsingafulltrúi bankans, í samtali við Markaðinn en hann segir uppsagnirnar koma til vegna skipulagsbreytinga.

Um sé að ræða starfsfólk á ýmsum sviðum bankans og ekki séu frekari uppsagnir fyrirhugaðar, að sögn Rúnars.

Starfsfólki Landsbankans fækkaði um meira en tuttugu á fyrstu sex mánuðum þessa árs og voru ársverk innan bankans um mitt þetta ár 872 talsins, samkvæmt síðasta uppgjöri.

Á fyrri árshelmingi var 3,3 milljarða króna tap á rekstri Landsbankans borið saman við 11,1 milljarðs króna hagnað á sama tímabili fyrir ári. Arðsemi eigin fjár var þannig neikvætt um 2,7 prósent á ársgrundvelli. Uppgjör bankans fyrir þriðja ársfjórðung verður birt á morgun, fimmtudag.