Tvö félög á vegum Novators, fjárfestingafélags Björgólfs Thors Björgólfssonar, högnuðust um tæplega 7,2 milljarða króna á árinu 2018 vegna sölu á hlut þeirra í tölvuleikjafyrirtækinu CCP. Þetta má lesa út úr ársreikningum félaganna, NP og NP II.

Novator varð stærsti hluthafi CCP árið 2005 og var leiðandi fjárfestir í tölvuleikjafyrirtækinu allt til ársins 2018 þegar það var selt til suðurkóreska tölvuleikjaframleiðandans Pearl Abyss. Þá var tekið fram í fréttatilkynningu að Novator og tengd félög hefðu fyrir söluna átt samanlagt ríflega 43 prósenta hlut í CCP.

Félagið NP var stærsti einstaki hluthafi tölvuleikjafyrirtækisins með 27,2 prósenta hlut og þá hélt NP II á 8,5 prósenta hlut í fyrirtækinu. Fyrrnefnda félagið bókfærði hjá sér 6,2 milljarða króna hagnað vegna sölunnar árið 2018 en það síðarnefnda ríflega eins milljarðs króna hagnað.

Pearl Abyss keypti allt hlutafé í CCP fyrir 225 milljónir dala, jafnvirði 27,7 milljarða króna, á haustmánuðum 2018. Auk þess var möguleiki á árangurstengdum greiðslum fyrir allt að 200 milljónir dala, sem jafngildir um 24,7 milljörðum króna, á árunum 2019 og 2020.

Rekstrarhagnaður CCP þarf samkvæmt kaupsamningnum að hafa verið meiri en 25 milljónir dala á síðasta ári til að það komi til árangurstengdra greiðslna fyrir árið. Á þessu ári þarf sá hagnaður svo að vera meira en 40 milljónir dala til þess að umrætt ákvæði virkist.

Til samanburðar má nefna að rekstrarhagnaður CCP var 5,2 milljónir dala árið 2018, 11,8 milljónir dala árið 2017 og 26,1 milljón dala á árinu 2016. Enn liggja ekki fyrir upplýsingar um afkomu tölvuleikjafyrirtækisins á síðasta ári.

Í ársreikningi Pearl Abyss á Íslandi fyrir árið 2018 kom fram að miðað við forsendur viðskiptaáætlunar suðurkóreska félagsins væri áætlað virði væntra greiðslna – vegna árangurstengda hluta kaupverðsins – um 23,8 milljónir dala eða aðeins um tólf prósent af þeim 200 milljónum dala sem geta að hámarki komið til greina.

Félög á vegum Novators voru eins og áður sagði stærsti hluthafi CCP með 43 prósenta hlut en aðrir stórir hluthafar voru bandarísku sjóðirnir New Enterprise Associates með 23 prósent og General Catalyst með 21 prósent og þá átti Hilmar Veigar Pétursson forstjóri 6,5 prósenta hlut.

Pearl Abyss, sem var stofnað árið 2010, gefur út leikinn Black Desert Online en flaggskip CCP er sem kunnugt er fjölspilunarleikurinn EVE Online. Starfsemi CCP hélst óbreytt hér á landi eftir söluna en um 200 manns starfa hjá fyrirtækinu á Íslandi og um fimmtíu í Bretlandi og Sjanghæ. Fyrirtækið velti alls 56,3 milljónum dala, jafnvirði 6,9 milljarða króna, árið 2018 og drógust tekjurnar saman um fjórtán prósent frá fyrra ári.