Heiðrún Lind Marteinsdóttir, framkvæmdastjóri Samtaka fyrirtækja í sjávarútvegi, segir að þó svo það sé of snemmt að segja til um á þessum tímapunkti hvaða áhrif innrás Rússa í Úkraínu muni hafa á sjávarútveginn þá sé ljóst að sjávarútvegurinn hafi mikla aðlögunarhæfni. Þetta sagði hún í sjónvarpsþættinum Markaðurinn sem sýndur verður á sjónvarpsstöðinni Hringbraut í kvöld.

„Það er mikilvægt að við tölum ekki þannig að þessir viðskiptahagsmunir séu farnir því sjávarútvegurinn hefur sýnt það í gegnum tíðina að hann er ótrúlega sveigjanlegur. Við höfum gengið í gegnum Rússabann, BREXIT og Kórónuveiruna. Við höfum fengið staðfestingu á því aftur og aftur að aðlögunarhæfni atvinnugreinarinnar er mikil. Ég hef fulla trú á því að okkur takist að komast í gegnum þetta en þetta verður óneitanlega högg.“

Hún bætir við að það sé ómögulegt að segja til um á þessum tímapunkti hversu langvinn áhrifin verða.

„Það væri mjög óábyrgt að segja á þessum tímapunkti hver áhrifin raunverulega verða. Markaðsbrestir geta verið víða og ófyrirsjáanlegir. Flutningar, olíukostnaður og allir þessir þættir eru miklir óvissuþættir. Þannig það er ómögulegt að segja til um það.“

Í þættinum var einnig rætt um kvótakerfið, veiðigjöldin, orkuskipti í sjávarútvegi og sjálfvirknivæðingu.