Sjávarsýn, fjárfestingafélag Bjarna Ármannssonar, hagnaðist um 945 milljónir króna árið 2019. Árið áður nam hagnaðurinn um 1,8 milljörðum króna. Mestu munar að gengishagnaður hlutabréfa var 757 milljónir króna í fyrra en 1,9 milljarðar króna árið áður. Arðsemi eigin fjár var 16 prósent á árinu 2019.

Eigið fé Sjávarsýnar var 7,4 milljarðar króna við árslok og eiginfjárhlutfallið var 94 prósent. Skráð hlutabréf voru bókfærð á 3,4 milljarða króna, óskráð innlend hlutabréf á 1,7 milljarða króna og erlend hlutabréf á 395 milljónir króna.

Sjávarsýn er stærsti hluthafi Iceland Seafood, með 10,8 prósenta hlut. Markaðsvirði hlutarins er nú 2,5 milljarðar króna. Bjarni tók við sem forstjóri sjávarútvegsfyrirtækisins við upphaf árs 2019. Fjárfestingafélagið er sjötti stærsti hluthafi VÍS með 6,3 prósenta hlut. Markaðsvirði hlutarins er nú 1,3 milljarðar króna.

Á meðal óskráðra hlutabréfa Sjávarsýnar er 100 prósenta hlutur í Gasfélaginu, 80 prósenta hlutur í Tandri, 51 prósents hlutur í Ísmar og 40 prósenta hlutur í verslunarsamstæðunni S4S, sem meðal annars á Ellingsen, Air og Steinar Waage.

Fjárfestingafélagið á skuldabréf og langtímakröfur sem metnar eru á 1,6 milljarða. Erlend skuldabréf voru metin á 681 milljón við lok árs 2018, en 961 milljón við lok árs 2019.