Heildarútgáfa íslenskra fyrirtækja og stofnana á sjálfbærum skuldabréfum stækkaði um ríflega 130 milljarða króna upp í samtals 185 milljarða á árinu 2020. Áform ríkissjóðs, orkufyrirtækja og viðskiptabanka um sjálfbæra fjármögnun ráða mestu um hvort útgáfan í ár slái síðasta ári við.

„Metfjárhæð, metfjöldi útgefenda og fjölbreyttara form fjármögnunar. Árið 2020 var ár sjálfbærrar fjármögnunar hjá íslenskum fyrirtækjum,“ segir Andri Guðmundsson, framkvæmdastjóri fyrirtækjaráðgjafar hjá Fossum mörkuðum, sem hafa haft umsjón með nær allri útgáfu grænna skuldabréfa á Íslandi.

Frá því að fyrsta græna skuldabréfið var gefið út af Landsvirkjun í mars 2018 hefur samanlögð útgáfa á þeim skuldabréfum, sem eru tengd sjálfbærnimarkmiðum útgefanda, numið um 185 milljörðum króna. Á síðasta ári nam útgáfan ríflega 130 milljörðum og þar af nam útgáfa grænna bréfa 47 milljörðum. Til samanburðar nam útgáfan 22,5 milljörðum árið 2019 og rúmlega 31 milljarði árið 2018.

tafla.JPG

Stærsta hluta útgáfunnar í fyrra má rekja til Íslandsbanka sem gaf út sjálfbært bréf í evrum fyrir jafnvirði um 48 milljarða íslenskra króna í nóvember, og grænt bréf fyrir um 2,7 milljarða króna. Ólíkt öðrum útgefendum, sem fjármagna sín eigin verkefni með skuldabréfaútgáfu, er bankinn í heildsöluhlutverki.

Næststærsti útgefandinn var Landsvirkjun, sem gaf út grænt skuldabréf fyrir 21 milljarð króna og einnig annað skuldabréf, sem er tengt við Heimsmarkmið sameinuðu þjóðanna, fyrir um 11 milljarða króna. Þá gaf Orkuveita Reykjavíkur út sjálfbærnitengd skuldabréf fyrir 25 milljarða, fasteignafélagið Reginn fyrir um 14,5 milljarða, Reykjavíkurborg 3,8 milljarða, og Lánasjóður sveitarfélaga fyrir 1,1 milljarð.

kaka.JPG

Andri segir erfitt að spá fyrir um útgáfu grænna og sjálfbærra bréfa á þessu ári. Áfram verði góður gangur hjá núverandi útgefendum en hvort útgáfa ársins slái síðasta ári við velti á því hvort stórir útgefendur komi inn á markaðinn.

„Það eru allar forsendur fyrir því að það haldi áfram svipaður taktur hjá núverandi útgefendum. Það gætu kannski orðið einhverjir 40 milljarðar á árinu,“ segir Andri.

„Stóra spurningin er hvað ríkissjóður, Landsvirkjun og síðan bankarnir gera.“

„Stóra spurningin er hvað ríkissjóður, Landsvirkjun og síðan bankarnir gera. Ríkissjóður, sem hefur fjármögnunarþörf upp á hundruð milljarða, er í sérflokki hvað mögulega útgáfufjárhæð varðar og Landsvirkjun er einu númeri stærri en flestir aðrir á innlenda markaðnum,“ bætir hann við.

Í stefnu Lánamála ríkisins fyrir árið 2021 kom fram að skýrt skilgreind græn og sjálfbær verkefni hér á landi kynnu að verða fjármögnuð með útgáfu svokallaðra grænna eða sjálfbærra ríkisskuldabréfa. Verkefnahópur á vegum fjármála- og efnahagsráðherra vinnur nú að greiningu á fýsileika slíkrar útgáfu.

Arion banki og Landsbankinn eru að vinna að sjálfbærniramma utan um sína fjármögnun. Lilja Björk Einarsdóttir, bankastjóri Landsbankans, sagði í viðtali við Markaðinn um miðjan janúar að bankinn áformaði að fjármagna sig erlendis á þessu ári og vildi gera það undir sjálfbærni­ramma. Eins og í tilfelli Íslandsbanka á síðasta ári yrðu útgáfur beggja banka umtalsverður hluti af heildarútgáfu ársins.

Andri Guðmundsson, framkvæmdastjóri fyrirtækjaráðgjafar hjá Fossum mörkuðum.

Þá gætu nýir útgefendur bæst í hópinn á næstu misserum. Útgerðarfélagið Brim vinnur einnig að því að skilgreina grænan fjármögnunarramma sem skuldabréf þess munu falla undir en sú útgáfa gæti hlaupið á nokkrum milljörðum.

Fasteignafélög eru í góðri stöðu til að gefa út græn bréf til að endurfjármagna umhverfisvottaðar byggingar. Reitir og Eik kunna að fylgja í fótspor Regins á einhverjum tímapunkti, sem og smásölufyrirtæki á borð við Festi, sem hefur svansvottað Krónuverslanir sínar og á fasteignirnar. Einnig kunna að felast tækifæri fyrir innviðafyrirtæki eins og Landsnet og Símann í því að smíða grænan fjármögnunarramma.

Áform ríkisins táknræn

Fjármála- og efnahagsráðherra skipaði verkefnahóp um græna og sjálfbæra fjármögnun um mitt síðasta ár. Þegar hefur verið hafin vinna við að bera kennsl á möguleg verkefni sem unnt væri að fjármagna með útgáfu sjálfbærra eða grænna skuldabréfa.

Samhliða frekari greiningu á mögulegum verkefnum þarf að ganga frá ramma sem er grundvöllur sjálfbærrar fjármögnunar en samkvæmt svari ráðuneytisins við fyrirspurn Markaðarins er stefnt að því að sjálfbær fjármögnunarrammi geti legið fyrir á næstu mánuðum.

„Önnur vestræn ríki hafa gefið út sjálfbær skuldabréf en öll hafa þau gert það af sömu ástæðu: Að gefa skuldabréfamarkaðinum merki um að hann þurfi að breytast.“

„Aukin þörf ríkissjóðs fyrir lánsfé á næstu árum skapar aukin tækifæri til útgáfu sjálfbærra skuldabréfa án þess að grafa undan markmiðum í lánastýringu,“ segir í svari ráðuneytisins.

Sasja Beslik, framkvæmdastjóri sjálfbærra fjárfestinga hjá J. Safra Sarasin bankanum í Sviss, tekur þátt í Janúarráðstefnu Festu – miðstöðvar um samfélagsábyrgð – á fimmtudaginn. Yfirskrift ráðstefnunnar í ár er The Great Reset! eða Nýtt upphaf! sem er jafnframt heiti á átaki á vegum World Economic Forum sem hefur það markmið að einblína á mikilvægi þess að horfa til sjálfbærrar uppbyggingar samfélaga í kjölfar kórónaveirufaraldursins.

Beslik segir í samtali við Markaðinn að íslenska ríkið sé í góðri stöðu til að gefa út sjálfbær skuldabréf, meðal annars vegna þess hversu langt Ísland sé komið í sjálfbærri orkuframleiðslu.

„Ég held að það sé skynsamlegt fyrir land eins og Ísland að gefa út sjálfbært skuldabréf. Það liggur beint við,“ segir Beslik.

„Önnur vestræn ríki hafa gefið út sjálfbær skuldabréf en öll hafa þau gert það af sömu ástæðu: Að gefa skuldabréfamarkaðinum merki um að hann þurfi að breytast. Það er helsta ástæðan. Þetta er táknrænt.“

Sasja Beslik, framkvæmdastjóri sjálfbærra fjárfestinga hjá J. Safra Sarasin bankanum í Sviss.

Ummæli Beslik ríma við það sem kemur fram í svari ráðuneytisins sem telur að útgáfunni sé ekki síst ætlað að senda „skýr skilaboð til fjárfesta um mikilvægi umhverfismála“.

„Ávinningur ríkissjóðs af sjálfbærri fjármögnun er til að mynda jákvæð ímynd og breiðari fjárfestahópur en á hefðbundnum skuldabréfum,“ segir enn fremur í svari ráðuneytisins.

Skilaboðin sem ráðuneytið vill senda með útgáfunni eru einnig þau að fjármálamarkaðurinn geti „beitt sér til að takast á við loftslagsvána.“

Beslik bendir á að umhverfislegi ábatinn af skuldabréfaútgáfu hjá þróuðu ríki sé tiltölulega lítill. Oft sé um að ræða endurfjármögnun á umhverfisvænum verkefnum sem eru nú þegar til staðar. Ábatinn sé mun meiri í þróunarríkjum þar sem meiri þörf er fyrir fjárfestingar í umhverfisvænum verkefnum.