Alls var 20 manns sagt upp á hjúkrunarheimili Hrafnistu á Sléttuvegi um mánaðamótin mars apríl og mánaðamótin þar á undan en uppsagnirnar náðu til margra ólíkra sviða, til að mynda stjórnenda, hjúkrunarfræðinga, og ræstitækna. Þá hefur á annan tug starfsmanna verið sagt upp á öðrum heimilum.

Þetta kemur fram í frétt mbl.is þar sem rætt er við Maríu Fjólu Harðardóttur, forstjóra Hrafnistu, en að sögn Maríu eru uppsagnirnar vegna erfiðra rekstrarskilyrða heimilanna sem Hrafnista rekur. Þrátt fyrir hagræðingar er gert ráð fyrir tugi milljóna króna rekstrarhalla á árinu.

„Við erum að horfa upp á hrikalegt rekstrarár og höfum gríðarlegar áhyggjur,“ segir María í samtali við mbl.is en hún segir að verð á bak við hvern íbúa heimilanna, svokallað einingarverð, dugi ekki til að standa við launahækkanir starfsmanna líkt og kveðið er á um í kjarasamningum.

Hrafnista hafi ítrekað leitað til heilbrigðisyfirvalda vegna málsins en fengið litlar upplýsingar og engar tryggingar um að þeim verði bættur upp launakostnaður.

Þá berist upplýsingar um verð á hvern íbúa seint og því sé erfitt að gera ráð fyrir hvernig tekjurnar af rekstrinum verða, til að mynda hafi einingarverðið fyrir árið 2021 ekki enn komið.

Að sögn Maríu bráðvantar fólk til að vinna á heimilunum og því séu uppsagnir ekki það sem þau þurfa á að halda.