Bílaleigan Berg sem rekur bílaleiguna Sixt hér á landi tapaði 233 milljónum króna á síðasta ári samanborið við 113 milljóna króna tap árið á undan. Þetta kemur fram í nýbirtum ársreikningi félagsins.

Mikill samdráttur var í tekjum hjá félaginu en árið 2020 námu tekjurnar aðeins 635 milljónum króna en voru 1,3 milljarðar króna árið 2019.

Eigið fé í lok síðasta árs var neikvætt um 140 milljónir króna en var jákvætt um 93 milljónir króna í lok árs 2019.

Í skýrslu stjórnar kemur fram að heimsfaraldurinn hafi veruleg og neikvæð áhrif á starfsemi félagsins á árinu. Verulegur samdráttur varð í starfsemi ferðaþjónustuaðila hér á landi vegna heimsfaraldursins og afleiddra aðgerða stjórnvalda. Tekjur félagsins drógust saman um 52 prósent og er það rakið til aðgerða stjórnvalda á landamærum segir í skýrslu stjórnar.

Bílaleigan Berg er í eigu hjónanna Benedikts Eyjólfssonar og Margrétar Betu Gunnarsdóttur en þau eiga einnig Bílabúð Benna og Nesdekk.