Athafnamaðurinn Sigmar Vilhjálmsson hefur keypt helmingshlut í Hlöllabátum en þetta staðfestir hann í samtali við Fréttablaðið. Hann vill þó ekki meina að hann sé með því á leið í bátastríð við sinn fyrrverandi viðskiptafélaga, Skúla Gunnar Sigfússon, aðaleiganda Subway á Íslandi líkt og slegið er upp á vef DV.
„Það tengist nú ekkert Skúla í Subway að ég sé að kaupa í Hlölla. Það tengist því frekar að ég þekki til í þessu fyrirtæki og hef gert í þó nokkurn tíma,“ segir Sigmar. Hann og Skúli hafa átt í deilum um lóðarréttindi á Hvolsvelli og verður dómur í málinu kveðinn upp í Landsrétti í fyrramálið.
„Ég er ekki í neinu bátastríði. Ég og Skúli erum báðir að selja báta. Hann á Subway og nú á ég Hlölla. Vissulega sambærilegar vörur, þó hitt sé alíslenskt og hitt ekki,“ segir Sigmar og segist vera að hugsa um allt annað en Skúla.
„Fyrir mér skiptir máli að það sé ákveðin saga í verkefnunum sem ég tek þátt í. Þetta félag hefur verið til á Íslandi síðan 1986 og er ekta vörumerki, þarf ekkert að þykjast og engir stælar í því. Ég sé mörg jákvæð tækifæri til að efla reksturinn markaðslega og sóknarlega.“