At­hafna­maðurinn Sig­mar Vil­hjálms­son hefur keypt helmings­hlut í Hlölla­bátum en þetta stað­festir hann í sam­tali við Frétta­blaðið. Hann vill þó ekki meina að hann sé með því á leið í báta­stríð við sinn fyrr­verandi við­skipta­fé­laga, Skúla Gunnar Sig­fús­son, aðal­eig­anda Subway á Ís­landi líkt og slegið er upp á vef DV.

„Það tengist nú ekkert Skúla í Subway að ég sé að kaupa í Hlölla. Það tengist því frekar að ég þekki til í þessu fyrirtæki og hef gert í þó nokkurn tíma,“ segir Sig­mar. Hann og Skúli hafa átt í deilum um lóðar­réttindi á Hvols­velli og verður dómur í málinu kveðinn upp í Lands­rétti í fyrra­málið.

„Ég er ekki í neinu báta­stríði. Ég og Skúli erum báðir að selja báta. Hann á Subway og nú á ég Hlölla. Vissu­lega sam­bæri­legar vörur, þó hitt sé al­ís­lenskt og hitt ekki,“ segir Sig­mar og segist vera að hugsa um allt annað en Skúla.

„Fyrir mér skiptir máli að það sé á­kveðin saga í verk­efnunum sem ég tek þátt í. Þetta fé­lag hefur verið til á Ís­landi síðan 1986 og er ekta vöru­merki, þarf ekkert að þykjast og engir stælar í því. Ég sé mörg já­kvæð tæki­færi til að efla reksturinn markaðs­lega og sóknar­lega.“