Samkeppniseftirlitið sektar Símann um 500 milljónir króna vegna brota á sáttum.

Síminn braut gegn skilyrðum í sáttum með því að hafa mikinn verðmun og ólíkt viðskiptakjör við sölu á Enska boltanum á Símanum Sport samkvæmt niðurstöðu Samkeppniseftirlitsins.

Hægt er að lesa nánar um rannsóknina hér

Þúsund kall fyrir Enska boltann

Verð fyrir Símann Sport/Enska boltann var aðeins 1.000 krónur á mánuði þegar þjónustan var seld sem hluti af Heimilispakka Símans og Sjónvarpi Símans Premium en 4.500 þegar þjónustan var seld sér. Sýn kvartaði til Samkeppniseftirlitsins vegna kynningu, verðlagningu og skilmála Símans í tengslum við Enska boltann. Það hafi falið í sér mjög alvarlegar samkeppnishömlur.

Rannsókn Samkeppniseftirlitsins leiddi í ljós að þorri viðskiptavina Símans, nærri því 99 prósent þeirra sem kaupa Enska boltann/Símann Sport, keyptu sjónvarpsefnið í heildarþjónustu með Heimilispakkanum og/eða Sjónvarpi Símans Premium í stað þess að kaupa þjónustuna eina og sér.

Niðurstaðan var að verðlagning Símans á Enska boltanum sem hluta af Heimilispakkanum hafi lagt stein í götu keppinauta fyrirtækisins og takmarkað möguleika þeirra til að laða til sín viðskiptavini.

„Samkeppniseftirlitið telur að framangreind brot séu alvarleg og til þess fallin að skaða hagsmuni almennings til lengri tíma, á mörkuðum sem skipta neytendur og efnahagslífið miklu máli. Því sé óhjákvæmilegt að leggja sektir á Símann vegna brotanna. Er það áhyggjuefni að Síminn hafi á ný gerst brotlegur með alvarlegum hætti.“

„Telur Samkeppniseftirlitið að brotin séu alvarleg og sektar Símann vegna þessa um 500 milljónir króna,“ segir í tilkynningu frá Samkeppniseftirlitinu.