„Meðalverð þokast upp á einstaklingsmarkaði, eftir margra ára tímabil skarpra lækkana. Enn sér þó ekki fyrir endann á verðþrýstingi á fyrirtækjamarkaði. Sala á skýjaþjónustu hefur aukist hratt á árinu og er Sensa í stórum verkefnum er snúa að skýjavæðingu,“ segir Orri Hauksson, forstjóri fyrirtækisins, í tilkynningu til Kauphallarinnar.

Hagnaður Símans á þriðja ársfjórðungi dróst saman um níu prósent á milli ára og nam 978 milljónum króna. „Við erum sátt við rekstur samstæðunnar á þriðja ársfjórðungi. Ófyrirséðir atburðir voru fáir og EBITDA framlegð eykst lítillega milli ára,“ segir hann.

Rekstrarhagnaður fyrir afskriftir og fjármagnsliði, það er EBITDA, jókst um átta prósent á milli ára og nam 2,8 milljörðum króna. Tekjur jukust um tvö prósent á milli ára og námu um 7,1 milljarði króna á þriðja ársfjórðungi.

Góður tekjuvöxtur í sjónvarpsrekstri

„Síminn Sport hefur notið velgengni umfram væntingar.“

Góður tekjuvöxtur er í sjónvarpsrekstri milli ára. „Síminn Sport hefur notið velgengni umfram væntingar frá því varan fór í loftið á miðjum þriðja fjórðungi. Vel hefur til dæmis gengið að semja um dreifingu vörunnar yfir öll fjarskipta- og sjónvarpsdreifikerfi landsins. Nær enska úrvalsdeildin til allra landsmanna og við sjáum áhugann fara vaxandi, með þeirri vönduðu og sérlega hagstæðu þjónustu sem Síminn Sport er. Við höfum því áfram góðar væntingar til vörunnar næstu mánuði,“ segir hann.

Að sögn Orra verður kostnaðaraðhald áfram í forgrunni í rekstri Símans. „Milli ára fækkar stöðugildum um 40 og má búast við svipaðri breytingu á nýjan leik fram til næsta hausts.“