Síminn hf. og hópur fjár­festa hafa keypt hlut í streymis­veitunni Upp­kasti ehf. Í til­kynningu kemur fram að streymis­veitan sé fyrst sinnar tegundar hér á landi en þar gefst fólki kostur á að miðla þekkingu sinni eða hæfi­leikum til á­skrif­enda og hafa af því tekjur eftir því hvað efnið er mikið spilað.

Allt efni verður á ís­lensku og efnis­tökin fjöl­breytt. Hægt er að fá að­gang að fjöl­breyttum mynd­verum til að taka upp efni og senda það út í gegnum smá­forrit Upp­kasts. Áskrift að streymisveitunni mun kosta 1.980 krónur á mánuði.

Stofn­endur Upp­kasts eru þeir Stefán Örn Þóris­son og Arnar Arin­bjarnar­son. Auk Símans hafa fjár­festarnir Ólafur Andri Ragnars­son, Jónas Björg­vin Antons­son, Jón Gunnar Jóns­son og Hall­dór H. Jóns­son keypt hlut í fé­laginu. Þá er Arcur Ráð­gjöf, sem sér­hæfir sig í þjónustu á sviði fjár­mála, stefnu­mótunar og sér­hæfðrar ráð­gjafar meðal hlut­hafa Upp­kasts.

,,Upp­kast virkar þannig að fólk setur inn sitt eigið efni sér að kostnaðar­lausu og fær greitt eftir á­horf­smínútum. Þetta er full­komni vett­vangur fyrir þá sem vilja koma hæfi­leikum sínum á fram­færi hvort sem um er að ræða í gegnum lifandi streymi eða upp­tekið efni,” segir Stefán í til­kynningunni.

Þar kemur fram að allur búnaður er til staðar í mynd­verinu hvort sem hann snýr að tækni­legum hliðum, mynda­vélum, ljósum og hljóð­mynd eða þegar kemur að við­tals­rými og full­búnu eld­húsi. Auk þess er til staðar 300 fer­metra hús­næði með 60 fer­metra stóru sviði á að henta vel fyrir bæði tón­listar­flutning, leik­sýningar eða uppi­stand.

Þar segir einnig að Upp­kast sé ekki bara ný tegund af tekju­lind heldur einnig þjónusta við lands­byggðina sem og ein­stak­linga sem bú­settir eru er­lendis. Inn á streymis­veitunni verður hægt að fletta upp eldra ís­lensku efni auk þess sem þar verður einnig hægt að finna fjöl­breytt úr­val fyrir börn bæði hvað varðar náms­efni, fræðslu og af­þreyingu.

,,Þetta er það sem við köllum lang­hala­tekju­módel sem teygir anga sína inn í flest allan efni­svið Upp­kasts. Fólk getur þannig haft tekjur af efni sínu langt inn í fram­tíðina,” segir Arnar í til­kynningunni.

Upp­kast verður fáan­legt í á­skriftar­formi en hægt er að nálgast streymis­veituna á heima­síðunni upp­kast.com sem og í öllum IOS og Android símum, App­le TV, LG Smart TV, Sam­sung Smart TVs og Android TVs.