Síminn hefur fengið til liðs við sig fjárfestingabankann Lazard og Íslandsbanka til að veita fjarskiptarisanum ráðgjöf um stefnumarkmið og framtíðarmöguleika Mílu, dótturfélags Símans.

Á meðal þess sem þar kemur til greina er að kanna „valkosti er varða framtíðar eignarhald á Mílu“, að því er haft var eftir Orra Haukssyni, forstjóra Símans, í afkomutilkynningu sem félagið sendi frá sér eftir lokun markaða í gær. Það eigi að gera í því skyni að „hámarka verðmæti eigna Símans fyrir hluthafa og að tryggja að framtíðarþróun innviða samstæðunnar verði hagfelld fyrir íslenskan almenning.“

Í tilkynningunni segir Orri að mikil og ör þróun hafi átt sér stað síðustu misserin á samsetningu fjarskiptafélaga á alþjóðamörkuðum. Þannig hafi innlendir og erlendir fjárfestar sýnt því aukinn áhuga að innviðaeignir séu aðskildar frá þjónustufélögum í smásölu. Míla, sem var með um 6,4 milljarða í tekjur í fyrra og skilaði 1.200 milljóna króna hagnaði, er heildsölufyrirtæki á fjarskiptamarkaði og felst starfsemi þess í að byggja upp og reka innviði fjarskipta.

Hugmyndir um að skoða þann möguleika að selja Mílu frá Símanum hafa lengi verið í burðarliðnum. Á það hefur verið bent að EBITDA-margfaldarar við sölu á sambærilegum innviðafyrirtækjum í nágrannaríkjum hafi verið yfir 15 sem þýðir að heildarvirði Mílu – EBITDA félagsins er áætluð um 5.150 milljónir á þessu ári – gæti verið vel yfir 70 milljarðar. Markaðsvirði Símans í Kauphöllinni í dag er hins vegar um 80 milljarðar.

Fyrr á árinu var gengið frá því að fjármagna Mílu sjálfstætt, í stað þess að félagið væri fjármagnað innan samstæðunnar, með 20 milljarða fjármögnun frá Íslandsbanka. Sú breyting, ásamt kaupum á rekstri IP/MPLS kerfis og rekstri farsímadreifikerfis af Símanum, er sögð liður í því að auka sjálfstæði Mílu. – hae