Síminn mun áfrýja ákvörðun Samkeppniseftirlitsins um að sekta fyrirtækið um 500 milljónir króna til áfrýjunarnefndar samkeppnismála.

Er Síminn sektaður fyrir að bjóða Heimilispakka og áskrift að Enska boltanum með miklum verðmun eftir því hvort áskriftin og umrædd þjónusta var seld saman eða sitt í hvoru lagi.

Segja ákvörðunina hamla samkeppni

Með þessu telur stofnunin að fyrirtækið hafi brotið skilyrði sáttar sem það gerði við Samkeppniseftirlitið þegar það keypti Skjáinn árið 2015.

Stjórnendur Símans segja niðurstöðu Samkeppniseftirlitsins vera skaðlega fyrir samkeppni.

Samkeppnisaðilinn notað sömu aðferðir

„Að mati Símans skýtur það afar skökku við, nú þegar loks er til staðar hörð samkeppni um sýningu á íþróttaefni hér á landi, að Samkeppniseftirlitið telji rétt að beita Símann háum fjársektum vegna sams konar pakkatilboða og tíðkuðust yfir áratugaskeið af þeim aðila sem hefur verið markaðsráðandi á áskriftarsjónvarpsmarkaði um árabil, 365 (nú Sýn), en þetta mál er einmitt tilkomið vegna kvörtunar Sýnar,“ segir í tilkynningu.

Verð lækkað á síðustu árum

Að sögn Símans hafi verð á enska boltanum lækkað eftir að fyrirtækið tók við sýningarréttinum sem og verð á öðru íþróttaefni.

„Neytendur hér á landi hafa aldrei áður haft jafn greiðan aðgang að enska boltanum, á jafn hagkvæmu verði. Það kann nú að breytast því ákvörðun Samkeppniseftirlitsins virðist við fyrstu skoðun geta leitt til þess að Símanum verði nauðugur einn kostur að hækka áskrift að sjónvarpsefni verulega.“