Síminn var í dag dæmdur í Héraðsdómi Reykjavíkur til þess að greiða 111 milljónir króna í skaðabætur til Tölvunar, Snerpu og Hringiðunnar, auk kostnaðar.

Upphaflegar kröfur félaganna voru að Síminn ætti að greiða þeim um þrjá milljarða króna en stefnufjárhæðin í málunum nam tæpum milljarði króna. Þetta kemur fram í tilkynningu Símans til Kauphallar en dómurinn hefur ekki verið birtur á vef dómstólsins.

Er skaðabótamálið sagt lúta að atvikum frá árunum 2005 til 2007. Byggðu málsaðilar á því að Síminn hefði valdið þeim tjóni á markaði vegna internetþjónustu.

„Niðurstaðan er Símanum mikil vonbrigði enda taldi félagið að ekki hefði verið sýnt fram á að háttsemi þess hafi farið gegn lögum,“ segir í tilkynningu.

Mun dómurinn ekki hafa áhrif á birtar afkomuhorfur félagsins en það skilaði rúmum milljarði í hagnað á þriðja ársfjórðungi.

Þá nam hagnaður Símans samtals tæpum 1,9 milljörðum á fyrstu níu mánuðum ársins. Til samanburðar nam hagnaður 2,3 milljörðum á sama tímabili í fyrra.

Síminn hefur ekki tekið ákvörðun um það hvort niðurstöðunni verði áfrýjað til Landsréttar.