Síldarvinnslan, sem er eitt stærsta sjávarútvegsfyrirtæki landsins og í nærri helmingseigu Samherja, verður verðlögð á allt að 99 milljarða króna í almennu hlutafjárútboði félagsins sem mun fara fram dagana 10. til 12. maí næstkomandi. Það er litlu minna en markaðsvirði Brims, eina útgerðarfyrirtækisins sem er nú skráð í Kauphöllinni, en það stóð í um 105 milljörðum króna við lokun markaða í gær.

Samkvæmt heimildum Markaðarins hefur verið tekin ákvörðun um að selja á bilinu 26 til 29 prósenta hlut í Síldarvinnslunni í útboðinu en á undanförnum dögum hafa staðið yfir fundir með fjárfestum þar sem stjórnendur og ráðgjafar félagsins, sem eru fyrirtækjaráðgjöf Landsbankans, hafa veitt ítarlegri upplýsingar en áður um hvernig staðið verður að sölunni. Þannig verður almennum fjárfestum boðið að kaupa hluti á genginu 55 til 58 krónur á hlut að nafnverði í hlutafjárútboðinu en í tilfelli fagfjárfesta verður útboðsgengið að lágmarki 55 krónur.

Hlutafé Síldarvinnslunnar nam um 1.700 milljónum króna að nafnvirði í árslok 2020 sem þýðir að heildarvirði útgerðarfélagsins er því metið á bilinu 93,5 milljarðar til tæplega 99 milljarðar í útboðinu. Ef samtals 29 prósenta hlutur verður seldur í heild sinni á gengi sem er í efri hluta verðbilsins – 58 krónur á hlut – þá er ljóst að um 28,6 milljarðar króna munu fást fyrir slíkan hlut í hlutafjárútboðinu. Verði hins vegar seldur minni hlutur, eða um 26 prósent, á genginu 55 krónur á hlut, þá verður söluandvirðið um 24,3 milljarðar.

Áætlað er að fyrsti viðskiptadagur með hlutabréf Síldarvinnslunnar í Kauphöllinni verði 27. maí næstkomandi.

Samkvæmt viðmælendum Markaðarins sem hafa setið fjárfestafundi um Síldarvinnsluna, meðal annars úr röðum lífeyrissjóða, verðbréfasjóða og fjárfestingafélaga, er umtalsverður áhugi á hlutafjárútboðinu og fastlega reiknað með því að það verði veruleg umframeftirspurn. Verðmatið á félaginu miðast meðal annars við að virði þess sé um tíu til ellefu sinnum áætlaður EBITDA-rekstrarhagnaður á þessu ári – eða liðlega níu milljarðar króna – en á síðasta ári nam hann um átta milljörðum. Eigið fé Síldarvinnslunnar stóð í 49 milljörðum króna í árslok 2020.

Þorsteinn Már Baldvinsson er forstjóri Samherja en útgerðarrisinn er stærsti hluthafi Síldarvinnslunnar með 45 prósenta hlut. Félagið mun selja hluta af þeim bréfum í útboðinu.

Ekki er búið að upplýsa fjárfesta um hvaða hluthafar Síldarvinnslunnar muni selja bréf sín – og þá hversu stóran hlut hver fyrir sig – en greint verður frá því í skráningarlýsingu þegar hún birtist í aðdraganda útboðsins. Ljóst er hins vegar að það verða fyrst og fremst sjávarútvegsrisinn Samherji, sem fer með tæplega 45 prósenta hlut í Síldarvinnslunni, og eignarhaldsfélagið Kjálkanes, sem á 34,2 prósenta hlut og er einnig meðal annars eigandi útgerðarfélagsins Gjögurs á Grenivík, sem munu standa að baki þeim hlut sem verður seldur í komandi útboði.

Þriðji stærsti hluthafi Síldarvinnslunnar, með um 11 prósenta hlut, er Samvinnufélag útgerðarmanna í Neskaupstað en forsvarsmenn félagsins hafa lýst því yfir að það muni ekki selja neitt af sínum bréfum í útboðinu heldur horfi fremur til þess að reyna að auka við hlut sinn.

Tilkynnt var um skráningar­áform Síldarvinnslunnar, sem er með höfuðstöðvar sínar í Neskaupstað en hjá félaginu starfa um 340 manns, í byrjun febrúar á þessu ári. Bókfært virði aflaheimilda Síldarvinnslunnar, sem eru einkum í uppsjávartegundum, nam um 30 milljörðum í árslok 2019 en ljóst er að virði þeirra, eins og verðlagningin á félaginu í útboðinu sýnir, er umtalsvert meira, líklega nær 80 milljörðum.

Hagnaður af rekstri Síldarvinnslunnar á síðasta ári var um 39,3 milljónir Bandaríkjadala, jafnvirði um fimm milljarða króna, og hélst nokkuð stöðugur frá fyrra ári þegar hagnaðurinn var 40,5 milljónir Bandaríkjadala. Rekstrartekjur fyrirtækisins minnkuðu um 6 milljónir dala og námu 184 milljónum dala. Eiginfjárhlutfall samstæðu Síldarvinnslunnar var 68 prósent við lok árs 2020.