Útgerðarfyrirtækið Síldarvinnslan hefur ákveðið að hefja undirbúning að skráningu á aðalmarkað NASDAQ Iceland, en frá þessu er greint á Facebook-síðu Síldarvinnslunnar. Landsbankinn mun hafa umsjón með skráningunni. Stefnt er að því að skráningu verði lokið á fyrri hluta þessa árs.

„Þessi vegferð er farin með það í huga að efla félagið og opna Síldarvinnsluna fyrir fjárfestum. Sjávarútvegurinn er undirstöðuatvinnugrein þjóðarinnar og er Síldarvinnslan meðal stærstu og öflugustu sjávarútvegsfélaga landsins. Með skráningu félagsins á markað fjölgar tækifærum fjárfesta til að koma að sjávarútvegi. Íslenskur sjávarútvegur er framsækin atvinnugrein þar sem stöðugt er unnið að aukinni verðmætasköpun auðlindarinnar samhliða áskorunum í að draga úr kolefnisspori og umhverfisáhrifum greinarinnar,“ er haft eftir Gunnþór Ingvarssyni, framkvæmdastjóra .

Höfuðstöðvar fyrirtækisins eru á Neskaupsstað og var það stofnað árið 1957. Um 360 manns starfa hjá fyrirtækinu.

Hluti hlutafjár Síldarvinnslunnar var skráður á Verðbréfaþing Íslands í október 1994. Nánast réttum 10 árum síðar í október 2004 var beiðni félagsins um afskráningu síðan samþykkt af kauphöllinni.

Samkvæmt nýjasta birta ársreikningi Síldarvinnslunnar var eigið fé fyrirtækisins um 360,5 milljónir dollara, eða sem nemur tæplega 49 milljörðum króna. Hagnaður félagsins fyrir skatta, afskriftir og fjármagnsliði nam 8,2 milljörðum árið 2019. Heildareignir fyrirtækisins nema um 69 milljörðum króna.

Í síðasta birta ársreikningi félagsins eru veiðiheimildir félagsins bókfærðar á um 29,7 milljarða króna. Samkvæmt sama ársreikningi átti félagið 18,49 prósent af úthlutuðum aflaheimildum loðnu, 16,64 prósent af íslensku síldinni, 21,37 prósent í norsk-íslensku síldinni, tæp 30 prósent kolmunna og 12,6 prósent makrílkvótans. Að auki á Síldarvinnslan 6,14 prósent af úthlutuðum úthafskarfa og 4,41 prósent af úthlutuðum þorski í Barentshafi.

Stærsti eigandi Síldarvinnslunnar er Samherji sem heldur á 44,64 prósent hlut. Næststærsti hluthafinn er Kjálkanes ehf, sem er meðal annars í eigu systkinanna Önnu og Inga Jóhanns Guðmundsbarna.