DecideAct hefur ráðið Sigvalda Egil Lárusson sem fjármálastjóra félagsins á Íslandi. Ásamt fjármálastjórn mun Sigvaldi sinna sölu og ráðgjöf til nýrra og núverandi viðskiptavina félagsins á Íslandi og erlendis.
Sigvaldi Egill kemur til DecideAct frá Hafrannsóknastofnun þar sem hann starfaði sem fjármála- og rekstrarstjóri. Áður starfaði hann sem fjármálastjóri hjá Verkfræði- og náttúruvísindasviði Háskóla Íslands og fyrir það sem viðskiptastjóri í Landsbankanum. Sigvaldi er einnig með meistaragráðu í reikningsskilum og endurskoðun frá Háskóla Íslands.
DecideAct sérhæfir sig í hugbúnaði og lausnum sem styrkja framkvæmd stefnu og styður almennt við stefnumiðaða stjórnarhætti fyrirtækja og stofnana. Bjarni Snæbjörn Jónsson, framkvæmdastjóri Decide Act á Íslandi, segir það mikinn feng að fá Sigvalda til liðs við fyrirtækið.
„Auk þess að styrkja innviði og fjármálastjórn DecideAct bæði á Íslandi og alþjóðlega, kemur Sigvaldi inn í hópinn með þekkingu og reynslu sem snýr að hinum mælanlega hluta stefnuframvindunnar. Við sjáum því fram á að geta aðstoðað viðskiptavini okkar enn frekar við að styrkja stefnuframvindu bæði með tilliti til mikilvægra stefnuverkefna og mælanlegra markmiða sem þau tengjast,“ segir Bjarni.
Sigvaldi tekur í sama streng og segir DecideAct bjóða spennandi og nýjar lausnir. Hann segir að hugbúnaðarlausn DecideAct gerir fyrirtækjum og stofnunum kleift að innleiða stefnur og fylgja þeim eftir með markvissari og gagnsærri hætti en áður.
„Framtíðar vinnuumhverfið er í mínum huga markmiða- og gagnadrifið þar sem vinnutími og staðsetning skipta minna máli en áður. Markviss vinna í átt að sameiginlegu markmiði fyrirtækja þar sem gögn eru notuð til ákvarðanatöku og virkrar stýringar í rekstri er framtíðin og þar skiptir öllu máli að nýta hugbúnað og þjónustu eins og DecideAct býður upp á. Ég hlakka mikið til að leggja mitt af mörkum í áframhaldandi uppbyggingu á DecideAct og aðstoða viðskiptavini okkar við að ná sínum markmiðum,“ segir Sigvaldi.