Sigurður Nordal, sem hefur starfað sem fréttastjóri viðskipta hjá Morgunblaðinu frá árinu 2014, hefur látið af störfum hjá blaðinu. Hann sendi starfsfólki Morgunblaðsins tölvupóst fyrr í dag þar sem hann greindi frá því að samkomulag hefði náðst á milli sín og stjórnar Árvakurs um starfslokin. 

Stefán Einar Stefánsson, sem hefur starfað sem aðstoðarfréttastjóri á viðskiptaritstjórn Morgunblaðsins frá því í mars 2016, mun taka við starfi fréttastjóra viðskipta, samkvæmt upplýsingum Fréttablaðsins.

Áður en Sigurður, sem er hagfræðingur að mennt, var ráðinn til Morgunblaðsins gegndi hann starfi framkvæmdastjóra Sinfóníuhljósmveitar Íslands frá árinu 2009 fram á haustið 2013. Fram að því gegndi hann ýms­um stjórn­un­ar­stöðum á fjármála­markaði um 16 ára skeið, meðal ann­ars hjá Seðlabanka Íslands, FBA, Íslands­banka, Kaupþingi og Ex­ista.

Stefán Einar hefur starfað á Morgunblaðinu frá byrjun árs 2015 en hann var formaður VR og Landssambands íslenskra verslunarmanna á árunum 2011 til 2013.

Þá hefur Skapti Hallgrímsson, sem hefur starfað hjá Morgunblaðinu í fjörutíu ár, einnig látið af störfum. Honum var sagt upp í gær að því er hann greinir frá á Facebook-síðu sinni. 

Einhverjar breytingar virðast vera í farvatninu hjá Morgunblaðinu því í blaði dagsins var tilkynnt um verðhækkun á áskrift að blaðinu. Full mánaðaráskrift kostar nú 6.960 krónur, en var áður 6.597 krónur.