Sigurður Atli Jónsson, stjórnarformaður ILTA Investments og fyrrverandi forstjóri Kviku banka, hefur tekið sæti í stjórnum Arctic Green Energy á Íslandi og í Singapore. Arctic Green Energy, sem er leiðandi fyrirtæki á heimsvísu í endurnýjanlegri orku, á, starfrækir og þróar verkefni sem skila miklum umhverfislegum og fjárhagslegum ábata til viðskiptavina sinna og fjárfesta.

Þetta kemur fram í tilkynningu en stærsta verkefni Arctic Green Energy er unnið í sameiningu með kínverska olíurisanum Sinopec. Samstarfsfélagið heitir Sinopec Green Energy og starfrækir stærstu jarðvarmahitaveitu í heimi. 

„Á starfsferli mínum hef ég leitt þrjú fjármálafyrirtæki og tekið að mér fjölmörg krefjandi og gefandi verkefni. Það leikur þó enginn vafi á því að þetta nýjasta verkefni mitt er það mikilvægasta sem ég hef tekið að mér til þessa. Baráttan gegn loftmengun og loftslagsbreytingum verður aðeins háð alþjóðlega og með samvirkni byggðri á sérgreindum aðgerðum og snjöllum lausnum. Það er heiður að fá að tækifæri til að sigra þá baráttu með framúrskarandi fólki hjá Arctic Green Energy og Sinopec Green Energy,“ segir Sigurð Atli.