Sigurður Hannesson, framkvæmdastjóri Samtaka iðnaðarins, mun taka sæti í stjórn Kviku banka á aðalfundi fjárfestingarbankans sem verður haldinn á fimmtudag. Framboðsfrestur rann út á laugardag.

Hann sest í stjórnina í stað Kristínar Pétursdóttur sem hefur gegnt stjórnarformennsku í bankanum undanfarin tvö ár.

Aðrir stjórnarmenn Kviku sækjast eftir endurkjöri en þeir eru Guðmundur Þórðarson, sem er jafnframt varaformaður stjórnar, Hrönn Sveinsdóttir, framkvæmdastjóri fjármála- og rekstrarsviðs hjá Sýn, Inga Björg Hjaltadóttir lögmaður og Guðjón Reynisson, fjárfestir og fyrrverandi forstjóri bresku leikfangaverslunarkeðjunnar Hamleys. Sjálfkjörið verður í stjórnina.

Þá gefa þau Albert Þór Jónsson, varaformaður stjórnar Regins, og Jóhanna Harpa Árnadóttir, verkefnastjóri samfélagslegrar ábyrgðar og sjálfbærni hjá Landsvirkjun, kost á sér í varastjórn Kviku.

Sigurður starfaði á árunum 2013 til 2017 sem framkvæmdastjóri á eignastýringarsviði MP banka, síðar Kviku. Árið 2015 gegndi hann varaformennsku í framkvæmdahópi stjórnvalda um losun fjármagnshafta og árið 2013 var hann formaður sérfræðingahóps um aðgerðir í þágu skuldsettra heimila. Sigurður starfaði sem framkvæmdastjóri Júpíters rekstrarfélags á árunum 2010 til 2013 og á sviði markaðsviðskipta hjá Straymi fjárfestingabanka á árunum 2007 til 2010. Hann er með DPhil gráðu í stærðfræði frá Oxford háskóla, BS gráðu í stærðfræði frá Háskóla Íslands og hefur lokið prófi í löggiltri verðbréfamiðlun.