Sigurður Hafsteinn Sigurðsson hefur verið ráðinn framkvæmdastjóri hjá Torfhús Retreat en hann stýrði opnun á því lúxushóteli árið 2019.

Sigurður kemur til Torfhús Retreat frá Icelandair þar sem hann var sérfræðingur á fjármálasviði en þar áður hafði hann meðal annars starfað fyrir hótelið Six Senses á eyjunni Koh Yao Noi í Tælandi.

Hann er með meistaragráðu í fjármálum fyrirtækja frá Háskólanum í Reykjavík og BA-gráðu í Hospitality Administration frá Swiss Hotel Management School. Sigurður hefur einnig lokið prófi til löggildingar í verðbréfaviðskiptum.

Talsmenn Torfhús Retreat segja það mikinn feng að fá Sigurð með alla sína þekkingu og reynslu til að stýra rekstri Torfhús Retreat sem byggir á þeirri hugmyndafræði að sýna virðingu fyrir umhverfinu, íslenskri arfleifð og menningu.

Sigurður hefur þegar tekið við hinu nýja starfi.