Sigþrúður Gunnarsdóttir hefur verið ráðin framkvæmdastjóri Forlagsins og Jón Heiðar Gunnarsson markaðsstjóri. Auk þess hefur Stella Soffía Jóhannesdóttir verið ráðin til starfa hjá Forlaginu. Frá þessu er greint í tilkynningu frá Forlaginu en starfsfólki var tilkynnt um þessar breytingar í morgun. Sigþrúður og Stella hafa starfað áður hjá Forlaginu en Jón Heiðar kemur frá auglýsingastofunni Sahara.

Breytingarnar eiga sér stað í kjölfar þess að fyrrverandi framkvæmdastjóri félagsins, Egill Örn Jóhannsson, og fjármálastjóri, Þórhildur Garðarsdóttir, sögðu störfum sínum lausum fyrir mánuði síðan.

„Við fögnum því mjög að ein okkar öflugasta samstarfskona hefur fallist á að taka að sér þá auknu ábyrgð sem felst í starfi framkvæmdastjóra. Sigþrúður hefur sýnt það í störfum sínum að hún hefur brennandi áhuga á framgangi íslenskra bókmennta og við erum sannfærð um að starfið muni farast henni vel úr hendi,“ segir Halldór Guðmundsson, stjórnarformaður Forlagsins, af þessu tilefni. Sigþrúður tekur til starfa þann 8. mars.

Útgefandi Forlagsins er sem fyrr Hólmfríður Matthíasdóttir. Staða fjármálastjóra hefur verið auglýst og hefur Þórhildur Garðarsdóttir fallist á að gegna starfinu þar til nýr stjórnandi hefur verið ráðinn.