Sigrún Ragna Ólafsdóttir, fyrrverandi forstjóri VÍS og Mannvits, hefur tekið sæti í stjórn Creditinfo Group. Hún hefur setið í stjórn dótturfélags samstæðunnar á Íslandi frá árinu 2017. Þetta kemur fram í tilkynningu.

Fram kom í Markaðnum í dag að Ali Mazanderani, meðeigandi hjá Actis, muni taka sæti í stjórn Creditinfo Group, í kjölfar þess að sjóðurinn jók við hlut sinn í fyrirtækinu í 20 prósent úr 10 prósentum. 

Fyrir eru í stjórn Creditinfo Group þau Reynir Grétarsson stjórnarformaður, Nora Kerppola og Hákon Stefánsson.

Mazanderani hefur starfað sem framkvæmdastjóri hjá Actis frá árinu 2010 og hefur unnið við það að byggja upp ráðgjafa- og fjármálaþjónustu fyrir fjármálafyrirtæki.


Heimildir herma að sjóðurinn hafi alls fjárfest fyrir 17 milljónir evra, jafnvirði 2,3 milljarða króna, í Creditinfo.

Actis fjárfesti upphaflega í Creditinfo árið 2016. Fyrirtækið er leiðandi fjárfestir í Asíu, Afríku og Rómönsku-Ameríku.

Fjárfestingasjóðurinn keypti nú tíu prósenta hlut af Reyni stjórnarformanni fyrirtækisins sem á 68 prósenta hlut eftir söluna.

Creditinfo hefur sótt fram á vanþróaðri mörkuðum sem eru í örum vexti. Fyrirtækið hefur opnað yfir 30 starfsstöðvar í fjórum heimsálfum, þar af rekur það ellefu skrifstofur í Afríku, og er með viðskipti í 45 löndum. 

Fram hefur komið í Markaðnum að félagið hafi vaxið um 15 prósent á ári býsna lengi. Veltan var um 38 milljónir evra í fyrra, jafnvirði 5,2 milljarða króna.