Sigrún Sigurðardóttir, doktor í hjúkrunarfræði og lektor við Háskólann á Akureyri hefur verið ráðin sem aðstoðarrektor Kvikmyndaskóla Íslands frá 1. september næstkomandi.

Alls bárust 35 umsóknir um starfið og 5 voru metnir vel hæfir. Núverandi rektor skólans er Friðrik Þór Friðriksson sem nýverið gerði fimm ára samning við skólann.

Sigrún er doktor í hjúkrunarfræði frá Háskóla Íslands. Sérsvið hennar er á sviði sálrænna áfalla, ofbeldis og áfallamiðaðrar nálgunar. Sigrún var ein af stofnendum og fyrsti formaður Krabbameinsfélags Sigurvonar á Norðanverðum Vestfjörðum. Sigrún var ein af stofnendum Rannsóknarmiðstöðvar gegn ofbeldi við Háskólann á Akureyri árið 2011 og situr þar í stjórn. Hún situr í stjórn Bjarmahlíðar, miðstöðvar fyrir þolendur ofbeldis á Akureyri. Hún var annar af stofnendum Samtaka um stuðningssetur fyrir ungt fólk, sem stofnuð voru í september 2018. Hún tók þátt í þróun fagvinnu fyrir opnun Bergsins headspace og var formaður fagráðs, hún er núverandi stjórnarformaður samtakanna.

Sigrún Sigurðardóttir hefur birt, ein og í samvinnu, 15 ritrýndar fræðigreinar frá árinu 2009 til 2019. Hún situr í doktorsnefndum nemenda og hefur verið leiðbeinandi á fjölda BS/BA og meistarprófsritgerða. Frá 2012 hefur hún kennt, þróað námskeið og haldið ráðstefnur við Háskólann á Akureyri.

Sigrún hefur reynslu af alþjóðlegu samstarfi á sínu sviði og er í samstarfi í norðurslóðaverkefnum og tengslanetum. Hún hefur reynslu af fjarkennslu og sveigjanlegu námi.

Þá var Sigrún ein af fyrstu konum sem fóru í lögreglunám þegar kvenlögregluþjónar voru ekki margir. Hún útskrifaðist sem lögregluþjónn frá Lögregluskóla Ríkisins árið 1993 og starfaði um árabil sem lögreglukona í upphafi síns starfsferils.