Kadeco hefur ráðið þau Sigrúnu Ingu Ævarsdóttur og Samúel Torfa Pétursson og hafa þau þegar hafið störf.
Sigrún Inga stýrir viðskipta- og markaðsmálum hjá Kadeco. Hún kemur frá Isavia þar sem hún starfaði sem deildarstjóri samgöngu- og fasteignatekna á Keflavíkurflugvelli og þar áður sem lögfræðingur viðskiptasviðs og sérfræðingur í viðskiptaþróun. Sigrún er með BA og ML gráðu í lögfræði frá Háskólanum í Reykjavík og situr í núverandi stjórnum Awarego og Samtökum atvinnurekenda á Reykjanesi.
Samúel Torfi býr yfir rúmlega 20 ára reynslu af fjölbreyttum verkefnum á sviði umhverfis- og skipulagsmála. Hann er nýr þróunarstjóri Kadeco en starfaði áður sem ráðgjafi á umhverfis- og skipulagssviði hjá VSÓ ráðgjöf. Samúel hefur sömuleiðis starfað við fasteignaþróun hjá Klasa og hjá Þyrpingu og við verkfræðiráðgjöf í skipulagi og samgöngum hjá Ramböll í Danmörku og hjá Línuhönnun, nú Eflu. Hann er með M.Sc. í umhverfis- og byggingaverkfræði frá Tækniháskólanum í Danmörku.
Kadeco, Þróunarfélag Keflavíkurflugvallar, hefur það að meginmarkmiði að leiða samstarf íslenska ríkisins, Isavia, Reykjanesbæjar og Suðurnesjabæjar um skipulag, þróun, hagnýtingu og markaðssetningu lands við Keflavíkurflugvöll.
„Það er mikill fengur í því að fá þau Sigrúnu og Samúel til liðs við okkur. Undanfarin ár hafa verið sérstaklega viðburðarík hjá Kadeco þar sem við lítum til framtíðar við þróun landsvæðisins umhverfis Keflavíkurflugvöll. Þar liggja ótal tækifæri og við erum mjög lánsöm að fá svona öflugt fólk til liðs við okkur í komandi verkefnum,“ segir Pálmi Freyr Randversson, framkvæmdastjóri Kadeco.