Mikil fjölgun hefur verið á íbúðum til sölu og hefur framboð aukist hratt eða um 45 prósent á einum mánuði.

Í fyrsta sinn síðan vorið 2021 eru nú fleiri en þúsund íbúðir til sölu á höfuðborgarsvæðinu en samtals eru þær 1.013 samanborið við 700 íbúðir í lok júlí.

Frá þessu er greint á vef Húsnæðis- og mannvirkjastofnunar.

Framboðið náði lágmarki í byrjun febrúar síðastliðin þegar aðeins 437 íbúðir voru til sölu.

Mynd/HMS

Framboð íbúða til sölu í nágrannasveitarfélögum hefur einnig aukist en þær eru nú 409 samanborið við 323 fyrir mánuði.

Á öðrum stöðum á landsbyggðinni virðist framboð aukast hægar en þar má finna 371 íbúð til sölu.

Þá hefur einnig borið á aukningu á framboði sérbýla á höfuðborgarsvæðinu sem virðist haldast þokkalega í hendur við aukningu á framboði íbúða til sölu.

Aukningin virðist einna helst vera komin til vegna eldri íbúða þar sem framboð á nýjum eignum hefur vaxið hægar.

Nú eru 151 ný íbúð til sölu en þær voru 57 þegar minnst var. Aukið framboð verður því ekki skýrt með auknu framboði nýrra bygginga heldur virðist líklegasta skýringin vera minnkandi eftirspurn sem leiðir til lengri sölutíma.

Um helmingur íbúða sem auglýstar eru til sölu eru settar á 75 milljónir króna eða meira.

Mynd/HMS